Veittu neyðarleyfi fyrir REGN-COV2

AFP

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna gaf í gær samþykki sitt fyrir lyfinu REGN-COV2 sem var notað í meðferð forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, þegar hann glímdi við kórónuveirunna.

Lyfið er framleitt af bandaríska lyfjafyrirtækinu Regeneron og má nú nota í meðferð fólks með Covid-19 sem hefur ekki verið lagt inn á sjúkrahús en er í mikilli áhættu um að enda þar.

Samþykkið var veitt eftir að rannsóknir sýndu að ef REGEN-COV2 mótefnið var notað dró það úr líkum á að viðkomandi yrði það alvarlega veikur að það þyrfti að leggja viðkomandi inn. 

Í svari Magnúsar Jó­hanns­son­ar, pró­fess­or emer­it­us í líf­lyfja­fræði við Há­skóla Íslands, á Vís­inda­vef HÍ segir: „En hvers konar lyf er REGN-COV2? Þetta lyf er ekki bóluefni heldur blanda tveggja mótefna, annað er upprunnið úr mönnum sem hafa veikst af COVID-19 og batnað en hitt úr músum sem voru sýktar með veirunni sem veldur COVID-19.

Mótefnin eru síðan framleidd í erfðabreyttum eggjastokkafrumum úr kínverskum hömstrum en frumurnar eru ræktaðar í miklu magni. Þessum mótefnum er ætlað að bindast prótínum á yfirborði veirunnar og hindra að hún geti tengst við og sýkt frumur líkamans. Um er að ræða svo kölluð einstofna mótefni sem bindast við sitt hvorn staðinn á veirunni. Lyfið þarf að gefa sem stungulyf, það verkar einungis í stuttan tíma en veitir ekki langvarandi vörn gegn sjúkdómnum eins og bóluefni.“

Stephen Hahn, nefndarmaður hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, Food and Drug Administration (FDA), segir að með því að heimila notkun lyfsins sé mögulega hægt að forða fólki frá því að þurfa að leggjast inn og um leið draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. 

Leonard Schleifer, forstjóri Regeneron, segir að þetta sé mikilvægt skref í baráttunni við Covid-19. Með þessu séu þeir sjúklingar sem eru í mikilli áhættu veitt meðferð snemma í veikindaferlinu.

Lyfið er annað mótefnalyfið sem fær neyðarsamþykkt hjá FDA en svipuð meðferð sem framleidd er að af Eli Lilly hlaut samþykki eftirlitsins 9. nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert