Boris Johnson: „Flóttaleið í augsýn“

Boris Johnson forsætisráðherra greinir frá stöðu mála.
Boris Johnson forsætisráðherra greinir frá stöðu mála. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt um afléttingu á ákveðnum sóttvarnaaðgerðum í Englandi frá byrjun næsta mánaðar.

Þær takmarkanir sem núna eru í gangi verða ekki endurnýjaðar þegar þeim lýkur 2. desember. Þá má almenningur yfirgefa heimili sín hvenær sem er og hitta aðra. Allar íþróttir utandyra verða leyfðar, verslanir verða opnar, ásamt líkamsræktarstöðvum. 

„Jólin verða ekki hefðbundin og það er enn langur vegur til vorsins. En við höfum komist fyrir horn og flóttaleiðin er í augsýn,“ sagði hann.

„Við verðum að halda út í baráttunni við veiruna þangað til prófanir og bóluefni koma okkur til bjargar og draga úr þörfinni á takmörkunum,“ bætti hann við.

Ekki hægt að borða á veitingastöðum

Johnson tilkynnti um þriggja þrepa kerfi og greint verður frá því síðar í þessari viku hvaða þrep tilheyra hvaða landssvæði. Miðað við þrep eitt skal fólk áfram vinna heiman frá sér ef það getur. Í öðru þrepi verða barir aðeins opnir ef þeir bjóða einnig upp á mat. Í þriðja þrepi  mega veitingastaðir aðeins sent mat heim til fólks eða látið fólk sækja hann, að því er segir á vef BBC.  Johnson bað eigendur veitingahúsa og bara afsökunar á þessu. Staðir sem bjóða upp á afþreyingu innanhúss verða einnig lokaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert