„Heilu fjölskyldurnar“ lagðar inn á spítala

Heilbrigðisstarfsmaður við stöerf á gjörgæsludeild í Delí.
Heilbrigðisstarfsmaður við stöerf á gjörgæsludeild í Delí. AFP

Heildarfjöldi kórónuveirusmita í Delí, höfuðborg Indlands, er orðinn hærri en hálf milljón. Gjörgæslulæknir á stærsta Covid-19 spítala Delí segir að Indverjar standi nú frammi fyrir miklum vexti smita í vetur. 

Læknar á Indlandi óttast að Delí verði miðja smita á Indlandi nú í fyrstu bylgju vetursins. Þar hafa bæst við fleiri en 128.000 tilfelli síðan í byrjun nóvember. 12 nóvember síðastliðinn voru 8.539 tilfelli skráð í borginni en um er að ræða mesta daglega smitfjölda síðan faraldurinn hófst. 

Síðastliðinn miðvikudag voru 131 dauðsfall vegna Covid-19 skráð í Delí en dauðsföll hafa aldrei verið fleiri á einum degi vegna Covid-19 á Indlandi. Um 12% þeirra sem mæta í sýnatöku í Delí hafa mælst smitaðir að undanförnu. 

Spítalar í borginni eru að fyllast og hið sama má segja um gjörgæslurými. 

250 manns bíða eftir plássi

„Fólk er í basli með að fá pláss. Jafnvel ég get ekki fengið pláss fyrir vini mína eða fjölskyldu. Þetta er það slæmt,“ sagði Harjit Singh Bhatti, ráðgjafi hjá einkasjúkrahúsinu Manipal í samtali við blaðamann BBC.

Öll 75 Covid-19 plássin og gjörgæslurýmin 10 eru full. 250 manns eru á biðlista eftir Covid-19 rýmum.

„Sjúklingar mæta margir saman í þessari bylgju. Við höfum séð heilu fjölskyldurnar sem hafa sýkst og verið lagðar inn á sjúkrahús eftir að þær sóttu hátíðir eða mannamót innanhúss,“ sagði Farah Husain, gjörgæslulæknir á stærsta Covid-19 spítala Delí, í samtali við blaðamann BBC.

„Hingað hafa t.d. komið hjón sem hafa smitast á sama tíma og þurfti að leggja inn á gjörgæslu samtímis. Hið sama á við um mæðgin sem hingað komu.“

Husain telur að Indverjar standi nú frammi fyrir miklum vexti smita.

mbl.is