Vill að QR-kóðar komi ferðalögum af stað

Grímuklæddir íbúar í Kína sýna QR-kóðana sem segja til um …
Grímuklæddir íbúar í Kína sýna QR-kóðana sem segja til um heilbrigði þeirra. AFP

Xi Jinping forseti Kína hefur kallað eftir „alþjóðlegum tæknibúnaði“ sem byggðist á svokölluðum QR-kóðum, strikamerkjum í farsímum, sem gætu opnað á ferðir fólks á milli landa að nýju þrátt fyrir heimsfaraldur.

„Við þurfum að samræma enn frekar stefnur og staðla og koma á hraðbrautum til að auðvelda skipulegt flæði fólks,“ sagði Xi á leiðtogafundi G20 ríkjanna um helgina. 

Mannréttindafrömuðir hafa varað við því að umræddir kóðar gætu verið notaðir til „víðtækara pólitísks eftirlits og útilokunar.“

Xi sagði að mögulegt væri að nota kóðana til að viðurkenna heilbrigðisvottorð sem byggð eru á kórónuveiruprófum. Eins og áður hefur komið fram skoða íslensk stjórnvöld nú möguleikann á því að erlendir ferðamenn geti komið hingað til lands án þess að sæta sóttkví með því að framvísa vottorði um að þeir séu með mótefni við kórónuveirunni. 

Xi Jinping forseti Kína.
Xi Jinping forseti Kína. AFP

„Gæti auðveldlega orðið Trójuhestur“

Xi fór ekki nánar út í það hvernig kóðarnir myndu virka á alþjóðavísu en innan Kína hafa QR-kóðar einmitt verið notaðir í svipuðu skyni síðan í febrúar. Kóðarnir eru strikamerki sem hægt er að framvísa og lesa í farsímum. Notendur fá græna, appelsínugula eða rauða kóða eftir því hver staða þeirra er en sá rauði og sá appelsínuguli gefa til kynna að notendur þurfi að fara í sóttkví í allt að tvær vikur. 

Kóðarnir eru byggðir á blöndu af upplýsingum frá stjórnvöldum og upplýsingum frá notendunum sjálfum. 

Að opna fyrir alþjóðleg ferðalög er enn áskorun innan flestra landa þar sem Covid-19 gerir stjórnvöldum erfitt að aflétta ferðatakmörkunum. 

Í tísti varaði Kenneth Roth, framkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch), við tillögu Xi. 

„Upphafleg áhersla á heilsu gæti auðveldlega orðið Trójuhestur fyrir víðtækara pólitískt eftirlit og útilokun,“ skrifaði hann. 

mbl.is