Frakkar komnir yfir versta hjallann

Eldri borgarar fylgjast með Macron Frakklandsforseta á sjónvarpsskjá í kvöld.
Eldri borgarar fylgjast með Macron Frakklandsforseta á sjónvarpsskjá í kvöld. AFP

Frakkar munu hefja afléttingu á ákveðnum sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins um helgina en þá verða búðir og kvikmyndahús opnuð aftur.

Þetta kom fram í máli Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í kvöld.

Þá munu Frakkar einnig geta varið tíma með fjölskyldunni yfir jólin að sögn forsetans.

Hann bætti því við að Frakkar væru komnir yfir versta hjallann í annarri bylgju faraldursins.

Alls hafa tæplega 2,2 milljónir Frakka greinst með veiruna og rúmlega 49 þúsund af þeim hafa látist.

Endurskoðuð í janúar

Macron sagði í sjónvarpsávarpi í kvöld að takmörkunum yrði að einhverju leyti aflétt fyrir jólin frá 15. desember, til að mynda ferðatakmörkunum. Það væri þá háð því að daglega greindust fimm þúsund smit eða færri.

Forsetinn sagðist vonast til þess að bólusetningar gegn veirunni hæfust í lok desember eða byrjun janúar en aldraðir og þeir sem viðkvæmastir eru verða fyrst bólusettir.

Macron sagði að staðan yrði endurskoðuð um 20. janúar og ef nýsmit væru áfram fá gætu barir og veitingastaðir opnað aftur.

Hafi smitum hins vegar fjölgað sagði hann að Frakkar yrðu að reyna allt til að koma í veg fyrir þriðju bylgjuna.

„Við verðum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir þriðju bylgjuna og þriðja útgöngubannið,“ sagði Macron.

mbl.is