Fyrsti svarti borgarstjórinn í New York látinn

David Dinkins heilsar Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2011.
David Dinkins heilsar Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2011. AFP

David Dinkins, fyrsti svarti borgarstjórinn í New York, er látinn, 93 ára að aldri.

Demókratinn stjórnaði borginni frá 1990 til 1993 eftir að hafa sigrað Rudy Giuliani og Edward Koch.

Kynþáttaátök einkenndu stjórnartíð hans, þar á meðal óeirðirnar í Crown Heights, auk þess sem hann var gagnrýndur fyrir að valda ekki starfinu.

Dinkins lést af náttúrulegum orsökum á heimili sínu, að sögn New York Times, innan við tveimur mánuðum eftir að eiginkona hans Joyce fór yfir móðuna miklu.

David Dinkins og eiginkona hans Joyce fagna sigri í kosningunum …
David Dinkins og eiginkona hans Joyce fagna sigri í kosningunum árið 1989. AFP

Hann er eini svarti borgarstjórinn sem hefur gegnt embætti borgarstjóra í New York. Hann tók við borg þar sem kynþáttahatur, fátækt og ofbeldi voru daglegt brauð. Rúmlega ein milljón borgarbúa fékk aðstoð frá borginni til að hafa í sig og á og árlega voru tilkynnt yfir eitt þúsund morð.

Dinkins átti að koma á stöðugleika í borginni, sem hann lýsti eitt sinn sem „undurfagurri mósaík“, en átti erfitt með að ná árangri.

Hann fjölgaði í lögreglunni til að takast á við glæpi eftir að ferðamaður frá ríkinu Utah var myrtur og dró úr fjármagni vegna menntunar, húsnæðis, heilbrigðismála og félagsþjónustu.

Dinkins skipaði samt einnig borgarstjórn úr fjölbreyttum hópi fólks, þar á meðal margar konur, fyrsta slökkviliðsstjóra New York frá Púertó Ríkó og samkynhneigðan svartan sálfræðing sem yfirmann geðheilbrigðismála.

Að sögn New York Times átti hann erfitt með að leiða borgarstjórnina styrkum höndum og var stundum gagnrýndur fyrir að vera „of mikið góðmenni“ til að stjórna borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert