„Mesti álitshnekkir í sögu verðlaunanna“

Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu og friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019, …
Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu og friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019, sýnir verðlaunin stoltur við ærandi lófatak fyrir tæpu ári. Hann er nú grunaður um þjóðarmorð í Tigray-héraðinu í Norður-Eþíópíu og kveður norskur prófessor í friðarfræðum verðlaunaveitinguna mesta álitshnekki í sögu friðarverðlauna Nóbels. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við horfum upp á friðarverðlaunahafa heyja stríð á hendur eigin þjóð. Sameinuðu þjóðirnar óttast að þjóðarmorð verði framið í Eþíópíu – það sem er að gerast þarna er bein afleiðing af stefnu forsætisráðherrans. Sama hvað Nóbelsverðlaunanefndin segir er verðlaunaveitingin í fyrra hneisa.“

Þetta segir Kjetil Tronvoll, prófessor í friðar- og átakafræðum (n. freds- og konfliktstudier) við Bjørknes-háskólann í Ósló, í samtali við norska dagblaðið VG og vísar til forsætisráðherra Eþíópíu, Abiy Ahmed, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels við athöfn í Ráðhúsinu í Ósló 10. desember í fyrra eins og mbl.is greindi frá.

Tronvoll, sem hefur fylgst glöggt með ástandinu í Eþíópíu síðastliðinn 30 ár, er með böggum hildar vegna átakanna í Tigray-héraðinu í Norður-Eþíópíu sem hófust fyrr í þessum mánuði, en þar fer stjórnarher Eþíópíu með oddi og egg gegn TPLF, Þjóðfrelsisfylkingu Tigray-héraðsins, og halda mannréttindasamtökin Amnesty International því fram að hundruð óbreyttra borgara hafi látið lífið í átökum TPLF og stjórnarhermanna.

Talið er að um 40.000 manns hafi hrakist á flótta það sem af er nóvember vegna átakanna í Tigray-héraðinu og allt að 2,3 milljónir barna þarfnist tafarlausrar aðstoðar vegna ástandsins.

Fulltrúar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna funduðu í dag með aðstoð fjarfundabúnaðar og ræddu átökin í Tigray-héraðinu og hættu á hugsanlegu þjóðarmorði gagnvart íbúum héraðsins sem eru fimm milljónir.

Fréttaflutningi frá Tigray-héraðinu eru takmörk sett þar sem stjórnvöld í Eþíópíu hafa lokað á alla fjarskiptamöguleika til og frá héraðinu. Á sunnudaginn gaf Ahmed forsætisráðherra TPLF-fylkingunni 72 klukkustunda frest til að leggja niður vopn og gefast upp, ellegar hlytu liðsmenn hennar verra af.

Ahmed hlaut í fyrra friðarverðlaun Nóbels fyrir „það lóð sem hann hefur lagt á vogarskálar friðar og milliríkjasamstarfs og einkum fyrir framtak hans í átt að lausn landamæradeilna við nágrannaríkið Erítreu“.

Svona var umhorfs í Humera í Tigray-héraðinu í fyrradag þegar …
Svona var umhorfs í Humera í Tigray-héraðinu í fyrradag þegar tvær konur og eldri maður létu lífið í sprengjuregni stjórnarhers friðarverðlaunahafans Abiy Ahmed. Öryggisráð SÞ og Amnesty International gruna forsætisráðherrann um þjóðarmorð gegn íbúum Tigray sem telja fimm milljónir. AFP

Nú, ári síðar, þegar forsætisráðherrann er grunaður um stríðsglæpi og hugsanlegt þjóðarmorð gagnvart löndum sínum, þykir mörgum, þar á meðal prófessor Tronvoll, veiting friðarverðlaunanna hjóm eitt og verst ígrundaða niðurstaða verðlaunanefndarinnar í sögu hennar.

„Að friðarverðlaunin séu nú tengd því sem Ahmed aðhefst er mesti álitshnekkir í sögu verðlaunanna. Þetta stríð rýrir æru verðlaunanna með hverjum deginum sem líður,“ segir Tronvoll að skilnaði við VG.

VG
VGII
Aftenposten
NRK

mbl.is