Öryggislögin segja til sín

Frá mótmælum í Hong Kong í fyrra, sem urðu til …
Frá mótmælum í Hong Kong í fyrra, sem urðu til þess að kínversk stjórnvöld hertu tökin á héraðinu. AFP

Yfirvöld í Hong Kong hafa ákært þrítugan aðgerðarsinna fyrir að grafa undan kínverska ríkinu og hvetja til sjálfstæðis héraðsins. Maðurinn, Ma Chun-man, er sá þriðji til að vera ákærður samkvæmt nýjum öryggislögum sem tóku gildi í Kína fyrr á árinu.

Maðurinn kom fyrir dóm í morgun en var síðar dreginn út úr réttarsal á sama tíma og hann hrópaði „Dreifið boðskapnum, lýðræði er varið með blíði og svita“.

Sakskóknarar héldu því fram fyrir rétti að maðurinn hefði verið handtekinn sjö sinnum á tímabilinu 15. ágúst til 22. nóvember og að hann hefði hrópað slagorð þar sem kallað var eftir sjálfstæði Hong Kong frá Kína.

Kröfu verjenda um að maðurinn yrði látinn laus gegn tryggingu var hafnað og verður hann í varðhaldi þar til rétturinn kemur aftur saman í febrúar.

Til marks um glatað málfrelsi

Réttarhöldin þykja sýna svart á hvítu hvernig nýja „þjóðaröryggislöggjöfin“ takmarkar málfrelsi í héraðinu og hve hörð viðurlög eru við brotum á þeim.

Stjórnvöld í Peking komu lögunum á í júní, en það var gert án aðkomu löggjafarþings Hong Kong. Með lögunum eru kynnt til leiks fjögur lögbrot: barátta fyrir aðskilnaði, undirróður, hryðjuverk og samráð við erlend yfirvöld.

Lögin veita kínverskum yfirvöldum einnig lögsögu í sérlega alvarlegum glæpum í Hong Kong og heimila leyniþjónustu frá meginlandinu að athafna sig í héraðinu í fyrsta sinn, en Hong Kong á að heita sjálfstjórnarhérað í Kína.

Lögunum var komið á eftir fjölmenn og oft á tíðum ofbeldisfull mótmæli í fyrra, þar sem krafist var aukinnar sjálfstjórnar, en kínversk stjórnvöld hafa sagt lögin nauðsynleg til að ná stöðugleika í ríkinu.

Yfir þrjátíu hafa verið handteknir á grundvelli nýju laganna, þar á meðal forsprakkar fyrrnefndra mótmæla, en sem fyrr segir aðeins þrjár ákærur verið gefnar út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert