Árás í svissneskri stórverslun

Mynd úr safni af lögreglu í svissnesku borginni Bern.
Mynd úr safni af lögreglu í svissnesku borginni Bern. AFP

Kona sem var handtekin vopnuð hnífi í stórverslun í Sviss í gær tengdist hryðjuverkarannsókn lögreglunnar þar í landi fyrir þremur árum.

Konan, sem er 28 ára gömul, stakk konu í hálsinn og reyndi að kyrkja aðra konu í versluninni í Lugano að sögn lögreglu. Önnur konan er alvarlega særð eftir árásina. 

Alríkislögreglan segir í færslu á Twitter að konan hafi áður verið til rannsóknar í tengslum við hryðjuverkarannsókn. Áður hafði lögreglan sagt að mögulega hefði árásin í gær verið hryðjuverkaárás. 

„Ástandið er grafalvarlegt,“ segir Norman Gobbi, yfirmaður héraðsstjórnarinnar í Ticino. Yfirmaður alríkislögreglunnar, Nicoletta della Valle, segir að árásin hafi ekki komið á óvart. Slíkar árásir séu gerðar út um allan heim. 

Gestir í versluninni höfðu yfirbugað konuna áður en lögreglan kom á vettvang. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert