Færri börn í heiminn vegna Covid

Mjög hefur dregið úr fæðingum á Ítalíu í ár.
Mjög hefur dregið úr fæðingum á Ítalíu í ár. AFP

Barnsfæðingum hefur fækkað mjög á Ítalíu og útlit er fyrir að þær verði sögulega fáar í ár og á því næsta. Ótti og óöryggi í tengslum við kórónuveirufaraldurinn er helsta skýringin. 

Í fyrra fæddust 420 þúsund börn á Ítalíu og hafa barnsfæðingar ekki verið svo fáar þar í landi í 150 ár. Útlit er fyrir að þeim fækki enn frekar í ár og verði um 408 þúsund talsins. Staðan versnar enn frekar á næsta ári þar sem spá Hagstofu Ítalíu, Isat, gerir ráð fyrir að á næsta ári fæðist 393 þúsund börn á Ítalíu. 

Forstjóri Isat, Gian Carlo Blangiardo, kynnti þetta á fundi með þingmönnum í gær. Hann segir að auk ótta og óvissu hafi fjárhagserfiðleikar margra sitt að segja hvað varðar barnsfæðingar á Ítalíu.

Hann segir að staðan sé svipuð nú og árin 1917 og 1918 þegar bæði spænska veikin og fyrri heimstyrjöldin geisuðu. Þessi tvö ár skipa sérstöðu í sögu Ítalíu hvað varðar fæðingartíðni.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundu ofbeldi.
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundu ofbeldi. AFP

Blangiardo segir að konur og ungt fólk hafi farið sérstaklega illa út úr kreppunni sem fylgir Covid-19. Enn er í gildi útgöngubann að næturlagi og þurfa veitingastaðir og barir að loka snemma á kvöldin vegna nýrra smitbylgju á Ítalíu. Atvinnuleysi kvenna á Ítalíu jókst um 1,9% á milli febrúar og september en 1,1% meðal karla. 

Isat varar við því að kórónukreppan sé að auka enn frekar á mismunun kynjanna á vinnumarkaði en 80% af störfum kvenna sem urðu til frá fjármálakreppunni 2008 og til 2020 eru orðin að engu. Frá 2008 til 2019 urðu til 602 þúsund ný störf meðal ítalskra kvenna en það þurfti aðeins þrjá mánuði, apríl til júní, til að 402 þúsund þeirra yrðu að engu. 

Á Ítalíu er aðeins helmingur kvenna á vinnumarkaði samanborið við 73% í Þýsklandi, 62% í Frakklandi og 58% á Spáni. Grikkland er eina land Evrópu þar sem staða kvenna er verri á vinnumarkaði en á Ítalíu en þar eru 47% kvenna á vinnumarkaði.

mbl.is