Fíkniefnafundur „misskilningur“

Trisodium phosphate.
Trisodium phosphate.

Taílensk yfirvöld greindu frá því fyrr í mánuðinum að lögreglan hefði lagt hald á ketamín að söluverðmæti einn milljarður bandaríkjadala, sem svarar til 136 milljarða króna. Nú hefur komið á daginn að um „misskilning“ var að ræða að sögn dómsmálaráðherra.

Þess í stað leiddi rannsókn í ljós að um efni er að ræða sem mjög oft er notað í hreinlætisvörur (trisodium phosphate).

Að sögn dómsmálaráðherra Taílands, Somsaks Thepsuthin, má rekja misskilninginn til tæknivillu á vettvangi, það er til prófunar á efninu sem gerð var á vettvangi meints glæps. Áður hafði verið greint frá því á blaðamannafundi að þetta væri mesta magn ketamíns sem taílensk yfirvöld hefðu lagt hald á.

Keta­mín er svæf­inga­lyf en vegna ofskynjana sem það veldur er það vinsælt í tengsl­um við skemmt­ana­hald. Það er mjög ávanabindandi og getur valdið alvarlegum áhrifum á fólk og jafnvel dregið það til dauða ef það er notað á rangan hátt. Trisodium phosphate er hvítt að lit og er til að mynda notað í blettaeyði.

Í frétt BBC kemur fram að hald hafi verið lagt á tæplega 11,5 tonn af hvítu dufti í vöruhúsi í Taílandi eftir að ábending barst um að fíkniefni væru geymd þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert