Gætu sent út milljónir skammta í desember

AFP

Alríkisstjórn Bandaríkjanna ætlar að senda 6,4 milljónir skammta af bóluefni Pfizer til samfélaga víðsvegar um landið innan sólarhrings frá því að efnið fær grænt ljós frá viðeigandi lyfjastofnun, ef slíkt samþykki fæst. Líkur á því að bóluefnið fái neyðarsamþykki strax um miðjan desembermánuð hafa aukist að undanförnu. 

Vonir standa til þess að þetta muni gera það að verkum að heilbrigðisstarfsmenn í framlínunni geti fengið bóluefni eins fljótt og mögulegt er. Washington Post greinir frá þessu.

Hershöfðinginn Gustave Perna, sem hefur yfirumsjón með svokallaðri Warp Speed áætlun ríkisstjórnar Donalds Trumps sem miðar að því að flýta fyrir meðferðum og bóluefnum vegna kórónuveirunnar, tjáði fréttamönnum í gær frá því hvernig skammtarnir muni skiptast. Útreikningar á skiptingunni byggja á mannfjölda í hverju ríki fyrir sig. 

Hershöfðinginn Gustave Perna leiðir Warp Speed áætlunina.
Hershöfðinginn Gustave Perna leiðir Warp Speed áætlunina. AFP

Fyrstu bólusetningarnar líklega framkvæmdar fyrir lok árs

Þessi fjöldi skammta mun einungis ná til hluta þeirra 20 milljóna heilbrigðisstarfsmanna sem starfa í Bandaríkjunum. 330 milljónir manna búa þar svo 6,4 milljónir skammta eru einungis dropi í hafið ef litið er til mannfjölda. Perna sagði þó að fleiri skammtar verði afhentir þegar framleiðslugeta Pfizer gerir það mögulegt. 

Líkurnar á því að eftirlitsstofnanir muni veita Pfzier neyðarsamþykki fyrir bóluefninu strax um miðjan desember hafa aukist að undanförnu og er útlit fyrir að fyrstu bólusetningarnar geti verið framkvæmdar fyrir lok árs.

Bandarískir embættismenn eru nú á góðri leið með að tryggja sér 40 milljónir skammta af bóluefnum frá Pfizer og Moderna en bæði bóluefnin hafa sýnt um 95% virkni. 40 milljónir skammta duga til að bólusetja 20 milljónir manna þar sem hver einstaklingur þarf tvo skammta af bóluefninu. Líklega verður hinn almenni Bandaríkjamaður ekki bólusettur fyrr en í apíl. 

Fyrsti skammturinn af bóluefninu frá Pfizer, sá sem hljóðar upp á 6,4 milljónir, á ekki einungis að fara til heilbrigðisstarfsfólks heldur einnig til fangelsismálastofnunar Bandaríkjanna, varnarmálaráðuneytisins og fleiri opinberra stofnana sem fá skammtana beint frá alríkisstjórninni. 

mbl.is