Látin laus úr írönsku fangelsi

Kylie Moore-Gilbert á flugvellinum í gær.
Kylie Moore-Gilbert á flugvellinum í gær. AFP

Bresk-áströlsk kona sem hefur setið í tvö ár á bak við lás og slá í Íran hefur verið látin laus eftir fangaskipti milli landa.

Kylie Moore-Gilbert, sem er háskólakennari í Melbourne í Ástralíu, yfirgaf Íran í dag eftir að hafa verið haldið í illræmdustu fangelsum landsins í meira en 800 daga. Þrír Íranar sem tengjast sprengjutilræði í Bankok voru framseldir til Írans gegn lausn hennar. 

Moore-Gilbert, sem er 33 ára gömul og sérfræðingur í íslömskum fræðum, var handtekin af byltingarvörðunum árið 2018 eftir að hafa tekið þátt í ráðstefnu fræðimanna í borginniQom. Hún var síðar ákærð fyrir njósnir og dæmd í 10 ára fangelsi. 

AFP

Mennirnir þrír sem voru framseldir heita Masoud Sedaghatzadeh, Mohammad Khazaei og Saeid Moradi en hann er í hjólastól eftir að hann sprengdi af sér fæturna með heimatilbúnu sprengiefni.

Fyrstu fréttir af lausn hennar bárust fjölskyldu og vinum í gegnum frétt í íranska sjónvarpinu frá flugvellinum í Teheran. Þar sást Moore-Gilbert ásamt sendiherra Ástralíu. Jafnframt voru birtar myndir af þremenningunum sem var fagnað sem þjóðhetjum af embættismönnum á flugvellinum, þar á meðal aðstoðar-utanríkisráðherra Írans. 

AFP
mbl.is