Viðskiptamálaráðherra Bretlands, Nadhim Zahawi, hefur verið gerður ábyrgur fyrir dreifingu bóluefnisins við kórónuveirunni þar í landi. Búist er við því að dreifing á bóluefnum í Bretlandi fari í gang fyrir jól. BBC greinir frá.
Zahawi, sem er þingmaður fyrir Íhaldsflokkinn, var skipaður í stöðuna af Boris Johnson forsætisráðherra, og mun gegna henni þangað til, í fyrsta lagi, næsta sumar. Zahawi mun hafa yfirsýn yfir dreifingu bóluefnisins í Englandi, en heimastjórnir í Skotlandi, Wales og N-Írlandi munu sjá um dreifingu efnisins innan mæra sinna.
Í Twitter færslu sagðist Zahawi vera himin lifandi yfir að hafa verið skipaður í stöðuna, en að frammi fyrir honum standi mikil áskorun og gríðarleg ábyrgð.
Bretland hefur þegar pantað 100 milljónir skammta af bóluefni Oxford og AstraZeneca og 40 milljónir skammta af bóluefni Phizer og BioNTech. Þá hefur ríkið einnig fjárfest í 5 milljónum skammta af bóluefni Moderna.
Í tilkynningu frá Downing-stræti kemur fram að Zahawi muni leggja núverandi verkefni sín til hliðar, en fyrrum viðskiptamálaráðherrann hefur meðal annars verið viðriðinn Brexit-samningaviðræðunum.