Íranar heita hefndum vegna morðsins

Mynd frá ír­anska sjón­varp­inu sýn­ir bif­reið Moh­sen Fa­k­hriza­deh eft­ir árás­ina.
Mynd frá ír­anska sjón­varp­inu sýn­ir bif­reið Moh­sen Fa­k­hriza­deh eft­ir árás­ina. AFP

Hossein Dehghan, hernaðarráðgjafi Ayatollahs Alis Khameneis, æðstaklerks Írans, hefur heitið því að Íranar muni hefna morðsins á Moh­sen Fa­k­hriza­deh, einum æðsta kjarnorkusérfræðingi Írans, en hann var myrtur úti á götu í Íran í gær.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sakar Ísrael um að standa á bak við árásina. Hann segir Ísrael hafa reynt að skapa óreiðu en Íranar muni ekki falla í þá „gildru“.

Ráðist var á Fa­k­hriza­deh þar sem hann var á ferð í borginni Absard, sem er 70 km aust­ur af höfuðborg­inni Teheran, og skotið á bifreið hans. Myndir sem íranskir miðlar birtu í gær sýndu bifreið hans illa útleikna eftir byssuskot með blóð á rúðunni, auk þess sem glerbrot og blóð var á götunni næst bifreiðinni. Lést Fa­k­hriza­deh síðar á sjúkrahúsi.

Mohsen Fakhrizadeh er lengst til hægri á myndinni.
Mohsen Fakhrizadeh er lengst til hægri á myndinni. AFP

Í umfjöllun New York Times kemur fram að leyniþjónustur bæði Bandaríkjanna og Ísraels hafi lengi talið Fa­k­hriza­deh forsvarsmann leynilegrar áætlunar Írana um að smíða kjarnorkusprengju og að vinna hans hafi haldið áfram árið 2003, þrátt fyrir að áætluninni hafi formlega verið hætt.

Hefur blaðið eftir einum bandarískum embættismanni og tveimur leyniþjónustumönnum að Ísrael hafi verið á bak við morðið á Fa­k­hriza­deh, en óvíst er hvort Bandaríkin hafi vitað af henni fyrirfram.

Árásin núna kemur ellefu mánuðum eftir að bandaríski herinn grandaði íranska herforingjanum Qa­sem So­leimani með dróna­árás á bíla­lest hans sem var að leggja upp frá alþjóðaflug­vell­in­um í Bagdad, höfuðborg Íraks. Er talið að árásin núna muni flækja enn frekar hugmyndir Joes Bidens, tilvonandi forseta Bandaríkjanna, um að endurvekja kjarnorkusamning Bandaríkjanna og Írans frá árinu 2015, en þá var Biden varaforseti. Donald Trump, núverandi forseti, dró Bandaríkin úr samkomulaginu árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert