Líkja hlaupinu við sjálfsvígstilraun

Brigid Kosgei.
Brigid Kosgei. AFP

Virtir læknar á Indlandi vara hlaupara við því að taka þátt í hálfmaraþoni sem stendur til að halda í Nýju-Delí á sunnudag. Meðal þátttakenda er heimsmethafinn í maraþoni kvenna. Að sögn lækna eru hlaupararnir að leggja sig í óþarfa hættu með því að taka þátt í langhlaupi í miðjum kórónuveirufaraldri auk þess sem loftgæði eru mjög lítil í borginni.

Um er að ræða keppni fyrir útvalda hlaupara og meðal þátttakenda er heimsmethafinn Brigid Kosgei frá Keníu og Eþíópíumaðurinn Andamlak Belihu, einn fremsti langhlaupari heims. Þátttakendur eru 49 talsins en þúsundir taka þátt rafrænt.

Skipuleggjendur hlaupsins segja að fyllsta öryggis sé gætt en sérfræðingar á heilbrigðissviði telja aftur á móti að hlaupararnir ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir taka þátt í því. Alls hefur greinst yfir hálf milljón Covid-19-smita í borginni, sem er mengaðasta höfuðborg heims. 

AFP

„Þetta er sjálfsvígstilraun hjá hlaupurum að taka þátt í keppninni núna. Loftgæðin eru svo lítil og við erum með áhættuna af kórónuveirunni,“ segir Arvind Kumar lungnasérfræðingur. Hann segir að áhættan sé tvöföld og ef fólk ætli sér að hlaupa þrátt fyrir að vera upplýst um áhættuna eigi hann engin orð til að lýsa angist sinni. Hvort sem þú ert alþjóðlegur afrekshlaupari eða lítill þorpsdrengur er áhættan sú sama segir læknirinn. 

Randeep Guleria, framkvæmdastjóri vísindaráðs Indlands (AIIMS), segir í samtali við AFP-fréttastofuna að í hans huga ætti að sleppa því að halda keppnina. „Vegna mikillar loftmengunar getur hreyfing í þessu veðri leitt til þess að undirliggjandi lungnavandamál aukist. Þó svo að þú sért afrekshlaupari hefur loftmengun áhrif á lungu þín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert