110 drepnir í fjöldamorði í Nígeríu

Hluti hinna hinna vegnu í Koshobe í Nígeríu, búnir til …
Hluti hinna hinna vegnu í Koshobe í Nígeríu, búnir til greftrunar. AFP

Að minnsta kosti 110 manns voru drepin með köldu blóði í árás á þorp í Norðaustur-Nígeríu á laugardag. Talið er að vígamenn íslamista-samtakanna Boko Haram hafi þar verið að verki, að því er Edward Kallon, hjálparstarfsmaður á vegum Sameinuðu þjóðanna, skýrði frá í dag. Óttast er að árásarmennirnir hafi einnig rænt konum úr hópnum.

„Að minnsta kosti 110 borgarar voru felldir af miskunnarleysi og fjölmargir fleiri særðir,“ sagði Kallon í yfirlýsingu eftir að óljósar fregnir höfðu borist af 43 en síðan 70, sem drepnir hefðu verið.

„Þetta atvik er hryllilegasta ofbeldisverk gegn saklausum borgurum, sem framið hefur verið á þessu ári,“ sagði þar ennfremur og var hvatt til þess að ódæðismennirnir yrðu fundnir og sóttir til saka fyrir blóðbaðið.

Árásin átti sér stað í þorpinu Koshobe, skammt frá borginni Maiduguri, en svo virðist sem vígamennirnir hafi ráðist að bændum og búaliði að verki á hrísgrjónaökrum við þorpið. Óttast er að fleiri lík finnist á næstunni, en a.m.k. átta er saknað.

Árásarmennirnir smöluðu fólkinu saman og bundu, en skáru það síðan á háls. Talið er að margir hinna föllnu séu farandverkamenn, sem ferðast höfðu um 1.000 km leið í atvinnuleit. Að sögn Kallons er talið að árásarmennirnir hafi einnig numið konur úr hópnum á brott.

Muhammadu Buhari Nígeríuforseti fordæmdi árásina og sagði að allt landið væri í sárum vegna hennar. Hún átti sér stað í þann mund, sem íbúar héraðsins gengu loks til kosninga, sem hefur ítrekað þurft að fresta vegna vígaferla Boko Haram og ISWAP, sem eru klofningssamtök frá hinum fyrrnefndu.

mbl.is