Fjórir lögreglumenn verða ákærðir

Mótmæli í París gegn kynþáttafordómum innan lögreglunnar og nýja frumvarpinu, …
Mótmæli í París gegn kynþáttafordómum innan lögreglunnar og nýja frumvarpinu, sem kemur á óheppilegum tíma fyrir ríkisstjórnina. AFP

Fjórir franskir lögreglumenn eiga yfir höfði sér ákæru vegna barsmíða og kynþáttaníðs í garð svarts upptökustjóra í París í vikunni. Aðalsaksóknari í París greindi frá þessu í dag. Mönnunum hafði þegar verið vikið frá störfum vegna málsins.

Mik­il reiði hefur gripið um sig meðal al­menn­ings í Frakklandi eft­ir að mynd­skeið sem sýn­ir lög­reglu berja manninn, Michel Zecler, og hreyta í hann fordómafullum fúkyrðum.

Mynd­skeiðið var sem olía á eld reiði fólks vegna lög­reglu­of­beld­is í Frakklandi, ekki síst vegna frum­varps til laga sem rík­is­stjórn­in hef­ur lagt fram þar sem takmarkanir eru settar á rétt almennra borgara til að taka upp og birta myndbönd af lögreglu að störfum. 

Tugir þúsunda mótmæltu lögunum í París í gær. Kveikt var í bílum og steinum kastað í lögreglumenn sem svöruðu með táragasi. Meðal þeirra sem særðust var sýrlenski blaðaljósmyndarinn Ameer al-Halbi sem vinnur fyrir AFP-fréttastofuna. Hann segir að gærkvöldið hafi minnt sig á ástandið í Aleppo.

Bent hefur verið á að atvikið hefði hugsanlega aldrei komist upp ef frumvarpið væri orðið að lögum. Samkvæmt því yrði ólöglegt að deila myndum eða myndböndum af lögreglu að störfum í þeim tilgangi að skaða „líkamleg eða andleg heilindi“ þeirra – hvað sem það á að þýða.

Ljósmyndarinn Ameer Al Halbi, sem særðist við störf.
Ljósmyndarinn Ameer Al Halbi, sem særðist við störf. AFP

Frumvarpið var samþykkt í neðri deild franska þingsins á dögunum en bíður samþykkis efri deildar. Gagnrýnendur segja það til marks um að forsetinn hafi færst til hægri frá því hann komst til valda árið 2017, sem miðjumaður sem boðaði frjálslyndar umbætur í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert