Palestínumenn telja kjör Bidens jákvætt

Mamhud Abbas og Ahmed Aboul Gheit á fundi sínum í …
Mamhud Abbas og Ahmed Aboul Gheit á fundi sínum í dag. AFP

Stjórnvöld í Palestínu og Arababandalagið segjast bjartsýn á samstarf við bandarísk yfirvöld eftir að Joe Biden sest í forsetastólinn í janúar næstkomandi. Vonast er til að Biden muni gegna jákvæðu hlutverki í að gera Palestínu að sjálfstæðu ríki. 

Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínu, og Ahmed Aboul Gheit, formaður Arababandalagsins, hittust í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í dag og ræddu meðal annars um átök Palestínu og Ísrael í ljósi nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum. 

Þeir vonast til að hin nýja ríkisstjórn í Bandaríkjunum muni ryðja veginn fyrir enduruppbyggingu og vera virkari og jákvæðari í leit að lausn á deilu ríkjanna tveggja. 

Abbas hefur biðlað til Bidens að styrkja sambandið á milli Palestínu og Washington, samband sem rofnaði þegar Donald Trump tók við sem forseti.

Sjórnvöld í Palestínu sökuðu, á þeim tíma, Trump um að vera með Ísrael í liði. Á kjörtímabili sínu lokaði Trump fyrir fjárveitingar til palestínskra flóttamanna sem Sameinuðu þjóðirnar sjá um og flutti einnig sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael frá Tel Aviv til Jerúsalem, í óþökk Palestínumanna. 

Trump forðaðist að gagnrýna landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakkanum og lagði grunn að umdeildri friðaráætlun í Mið-Austurlöndum án aðkomu Palestínu.

mbl.is