Stórfyrirtæki ekki gerð ábyrg fyrir starfsemi erlendis

AFP

Tillaga um innleiðingu strangra reglna um samfélagsábygð fyrirtækja í Sviss var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Samkvæmt tillögunni hefðu fyrirtæki með höfuðstöðvar í Sviss verið lagalega ábyrg þar í landi fyrir ólöglegum viðskiptaháttum hvar í heiminum sem er.

Tillagan naut raunar stuðnings tæps meirihluta kjósenda, alls 50,8%. Hins vegar nægir það ekki til, þar sem samþykki þarf að nást í meirihluta kantóna landsins. Meirihluti var fyrir breytingunni í átta og hálfri kantónu, en í tólf og hálfri var meirihluti gegn tillögunni.

Tillagan var lögð fram af bandalagi 130 samtaka og naut stuðnings verkalýðsfélaga og kirkjudeilda. Ríkisstjórnin og þingmenn höfðu þó lagst gegn henni og sagt að þótt ásetningurinn væri góður þá gengi tillagan „of langt“.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar virkjar sjálfkrafa gagntillögu ríkisstjórnarinnar, sem skyldar fyrirtæki að tilkynna um mannréttindabrot, bresti í umhverfisvernd og spillingarmál — án þess að fyrirtækin séu lagalega ábyrg í Sviss.

Auglýsingaplakat þar sem kjósendur eru hvattir til að greiða atkvæði …
Auglýsingaplakat þar sem kjósendur eru hvattir til að greiða atkvæði með tillögunni. „Mengað drykkjarvatn eitrar fyrir börnum. Látum alþjóðleg fyrirtæki bera ábyrgð,“ segir á skiltinu. AFP
mbl.is