Cher tók á móti „mest einmana fíl í heimi“

Söngkonan Cher tók á móti „mest einmana fíl í heimi“ í Kambódíu í dag. Fíllinn mun hefja nýtt líf á sérhæfðum griðastað eftir að honum var bjargað úr slæmum aðstæðum í dýragarði í Pakistan.

Aðstæðurnar sem Kaavan, sem er 36 ára, var boðið upp á í dýragarðinum í höfuðborginni Islamabad þóttu óboðlegar og hófu dýraverndunarsamtök um víða veröld herferð til að bjarga honum.

Cher bíður eftir komu fílsins á flugvellinum í Kambódíu ásamt …
Cher bíður eftir komu fílsins á flugvellinum í Kambódíu ásamt aðstoðarumhverfisráðherranum Neth Pheaktra. AFP

Herferðin fékk byr undir báða vængi þegar Cher ákvað að ferðast fyrst til Pakistans og síðan Kambódíu til að taka á móti honum í nýjum heimkynnum hans.

„Ég er mjög stolt yfir því að vera hérna,“ sagði hún við AFP-fréttastofuna. „Hann á eftir að vera mjög hamingjusamur hér,“ bætti hún við og sagðist vona að erfiðleikar hans væru núna að baki.

Cher í Kambódíu eftir að fíllinn hafði verið fluttur þangað.
Cher í Kambódíu eftir að fíllinn hafði verið fluttur þangað. AFP

Ferðalag fílsins til Kambódíu gekk eins og í sögu, að sögn dýralæknis hjá dýraverndunarsamtökunum Four Paws, og hegðaði Kavaan sér eins og „reyndur flugfarþegi“. Til að halda honum góðum á leiðinni voru um borð í flugvélinni 200 kíló af mat og snarli sem hann gat étið meðan á sjö klukkustunda fluginu stóð.

Sérstöku kerfi til að taka við allt að 200 lítrum af þvagi var sömuleiðis komið fyrir í búrinu hans í flugvélinni, sem var rússnesk júmbó-flutningavél.

Fíllinn er hann var fluttur frá Pakistan.
Fíllinn er hann var fluttur frá Pakistan. AFP

„Kambódía býður Kaavan innilega velkominn. Hann verður ekki lengur „mest einmana fíll í heimi“,“ sagði aðstoðarumhverfisráðherra landsins Neth Pheaktra við komu hans til Kambódíu.

Ferðalag fílsins er afrakstur áralangrar herferðar dýraverndunarsinna, sem sögðu að hegðun hans er hann dvaldi í Pakistan hefði borið vott um „eins konar andleg veikindi“, líkast til vegna slæmra aðstæðna í dýragarðinum.

AFP
mbl.is