Fjarnám en ekkert net

AFP

Tvö af hverjum þremur börnum á skólaaldri í heiminum hafa ekki aðgang að neti á heimilum sínum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðafjar­skipta­sam­bands­ins (ITU) og UNICEF.

Á sama tíma hefur skólaganga einkennst af fjarnámi vegna kórónuveirufaraldursins. Stofnanirnar hvetja ríki heims til að fjárfesta á þessu sviði til að binda endi á mismunun á aðgengi barna og ungmenna að tækifærum á netinu og framúrskarandi kennslu rafrænt. 

Í skýrslunni How Many Children and Youth Have Internet Access at Home? kemur fram að 2,2 milljarðar barna og ungmenna yngri en 25 ára eru ekki með nettenginu á heimilum sínum. Meirihluti fólks á aldrinum 15-24 ára, eða 759 milljónir, er ekki með aðgang að netinu á heimilum sínum. Þetta eru 63% ungmenna í þessum aldursflokki í heiminum.  

Ójöfnuðurinn er sláandi í skýrslunni þegar kemur að heimshlutum. Til að mynda eru aðeins 5% af börnum og ungmennum yngri en 25 ára í Vestur- og Mið-Afríku með nettengingu á heimilum sínum. Í Suður-Asíu er þetta hlutfall 13% og staðan er svipuð í Austur- og Suður-Afríku. 

Í skýrslunni kemur fram að vegna þessarar mismununar eru möguleikar barna og ungmenna til þess að ná árangri í skóla, vinnu og lífinu gjörólík á tímum stafrænnar þróunar. Þegar menntun snýst að miklu leyti um fjarkennslu vegna Covid-19 er skortur á nettengingu gríðarleg hindrun fyrir þetta unga fólk í framtíðinni.

Að það skipti sköpum hvar börn og ungmenni búa hvað varðar framtíð þeirra. Staða barna sem búa í dreifbýli við fátækt er verst og allt önnur en þeirra barna sem búa í þéttbýli og við betri efnahag. 

Að svo mörg börn og ungmenni hafi ekki aðgang að neti á heimilum sínum er miklu meira en stafrænt bil, þetta er stafrænt gljúfur segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Skortur á tengingu takmarkar ekki aðeins möguleika barna og ungmenna á að tengjast netinu. Það kemur í veg fyrir að þau séu samkeppnisfær í nútímahagkerfi. Það einangrar þau frá heiminum. Á tímum þar sem skólar eru lokaðir líkt og milljónir búa við í dag vegna Covid-19 missa þau af menntun. „Hreint út sagt: Skortur á nettengingu kostar næstu kynslóð framtíðina.“

Um 250 milljónir nemenda í heiminum búa við lokun skóla enn í dag vegna Covid-19. Hundruð milljóna nemenda þurfa að reiða sig á nám í sýndarveruleika. Fyrir þau sem hafa ekki aðgang að nettengingu þýðir þetta að þau fá ekki menntun.  

Sjá nánar hér 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert