Neita að fjarlægja færsluna

AFP

Twitter hefur hafnað beiðni ástralskra yfirvalda um að fjarlægja færslu á síðu kínverskra stjórnvalda á samfélagsmiðlinum þar sem fjallað er um ástralska hermenn.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Zhao Lijian, reitti stjórnvöld í Canberra til reiði í gær með því að birta mynd af manni í búningi ástralsks hermanns sem heldur blóðugum hnífi að hálsi barns. 

Saksóknarar í Ástralíu hafa sett rannsókn á laggirnar um meint brot 19 hermanna í Afganistan. Eru þeir grunaðir um stríðsglæpi við störf sín í landinu.

Twitter hefur merkt færsluna sem viðkvæma en að færslur sem tengjast stjórnmálum og utanríkismálum á síðum ríkisstjórna brjóti yfirleitt ekki gegn reglum miðilsins.

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, gagnrýndi færsluna harðlega í gær og krafðist hann þess að Kínverjar bæðust afsökunar og að Twitter myndi fjarlægja hana. 

Fáir Kínverjar hafa aðgang að Twitter og í áratugi hafa kínversk stjórnvöld verið sökuð um víðtæk mannréttindabrot. Ýmsir bandamenn Ástrala gagnrýndu einnig færsluna, svo sem forsætisráðherra Nýja Sjálands, Jacinda Ardern, og utanríkisráðuneyti Frakklands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert