Sex vikna takmörkunum aflétt á Írlandi

Fólk á gangi eftir Grafton Street í Dublin 21. október.
Fólk á gangi eftir Grafton Street í Dublin 21. október. AFP

Írsk stjórnvöld afléttu í morgun sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi síðan 22. október. Núna mega allar verslanir vera opnar, ásamt hárgreiðslustofum og líkamsræktarstöðvum. 

Söfn, gallerí, bókasöfn, kvikmyndahús og bænastaðir opna einnig á nýjan leik. Þessum stöðum var lokað fyrir sex vikum síðan til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.

Á föstudaginn verður börum sem selja mat og veitingastöðum sömuleiðis leyft að opna. Stjórnvöld hvetja fólk til þess að nota grímur utandyra á fjölförnum götum í aðdraganda jólanna. 

Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands.
Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands. AFP

Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, telur að smitum muni fjölga fram að jólum. „Áskorun okkar er að halda þeim eins fáum og mögulegt er,“ sagði hann.

Samkvæmt nýjustu tölum hafa 2.053 látið lífið á Írlandi vegna kórónuveirunnar en íbúar landsins eru fimm milljónir.

Flestir létust á einum degi í landinu um miðjan apríl, eða 77. Undanfarnar vikur hafa oftast nær innan við tíu látist á dag.

Fjórtán daga nýgengi innanlandssmita í landinu á hverja 100 þúsund íbúa er nú það næstlægsta í Evrópu á eftir Íslandi.

Maður horfir á plakat á kaffihúsi í Dublin.
Maður horfir á plakat á kaffihúsi í Dublin. AFP

„Aðgerðirnar og fórnirnar sem við höfum þurft að færa eru að virka. Lífum hefur verið bjargað,“ sagði forsætisráðherrann Micheal Martin, í ávarpi á föstudaginn.

„Með því að aflétta takmörkunum förum við eins langt og mögulegt er til að ná sem bestu jafnvægi á milli heilsu, efnahagsins og félagslegra þátta, en ekki lengra en það.“

Micheal Martin, forsætisráðherra Írlands.
Micheal Martin, forsætisráðherra Írlands. AFP

Enn er tekið fyrir heimsóknir fólks á önnur heimili og fólk er hvatt til þess að ferðast ekki út fyrir bæjarmörkin eða sýsluna.

Frá 18. desember til 6. janúar verður þó breyting á þann veg að fólk frá alltvað að þremur heimilum má hittast og ferðalög mega vera lengri.

mbl.is