Útgöngubann í höfuðborg N-Kóreu

Mynd sem tekin var af leiðtoganum í síðasta mánuði.
Mynd sem tekin var af leiðtoganum í síðasta mánuði. AFP

Búið er að setja strangt útgöngubann í Pyongyang, höfuðborg N-Kóreu. Búið er að banna öllum að yfirgefa híbýli sín, en nú síðast var íbúum jafnframt óheimilt að veiða sér til matar. Þetta herma heimildir innan úr leyniþjónustu S-Kóreu. 

Herma sömu heimildir að tveir hafi verið teknir af lífi, en grunur lék á því að viðkomandi aðilar væru með kórónuveiruna. Einræðisherra landsins, Kim Jong Un, er sagður á viðkvæmum stað, en hann mun hafa skipað öllum erindrekum N-Kóreu að láta lítið bera á sér. 

Hræddur við faraldur

Ha Tae-Keung, einn þeirra sem sat fund leyniþjónustu S-Kóreu, segir Kim vera hræddan við að kórónuveiran kunni að ná fótfestu í N-Kóreu. Þá sýni hann miklar skapsveiflur sem koma einna best í ljós með „órökréttum“ aðgerðum. Er hann sagður hræddur um að faraldur í ríkinu muni hafa í för með sér ófyrirséðar efnahagslegar afleiðingar.

Einn þeirra sem var líflátinn í síðustu viku er talinn hafa verið þekktur gjaldeyrisfjárfestir. Talið er að Kim hafi kennt honum um fall gjaldmiðils landsins, en hann hefur verið í frjálsu falli. 

Undanfarna níu mánuði hafa embættismenn í N-Kóreu sagt að ekkert kórónuveirusmit hafi komið upp í landinu. Þrátt fyrir það hefur ríkið lokað á öll viðskipti við Kína, en viðskiptin milli ríkjanna það sem af er ári eru einungis um fjórðungur af því sem þau voru í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert