15 ára grunaður um manndrápstilraun

Lögregla við eftirlit á Karl Johans-göngugötunni í miðborg Óslóar. Fimmtán …
Lögregla við eftirlit á Karl Johans-göngugötunni í miðborg Óslóar. Fimmtán ára piltur var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að stinga annan, 14 ára, nokkrum sinnum og veita honum alvarlega áverka við Lindeberg-verslunarkjarnann skammt frá Furuset þar í borginni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Héraðsdómur Óslóar hefur úrskurðað 15 ára gamlan pilt í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um tilraun til manndráps um hádegisbilið á mánudag. Liggur hann undir grun um að hafa veitt öðrum, 14 ára gömlum, alvarleg stungusár í kjölfar átaka milli þeirra við Lindeberg-verslunarkjarnann skammt frá Furuset í Ósló rétt fyrir hádegi á mánudag.

Lögreglu barst tilkynning um átök við Lindeberg og fann fórnarlambið skömmu síðar um borð í strætisvagni. Að sögn Morten Kalhagen hjá ofbeldisbrotadeild Óslóarlögreglunnar voru áverkar drengsins alvarlegir en þó ekki lífshættulegir og var hann fluttur á sjúkrahús.

Leituðu með hunda

„Við gátum rætt við fórnarlambið og fengum upplýsingar um hvað gerðist og hvar,“ segir Arve Røtterud, sem var vettvangsstjóri á mánudaginn, í samtali við Dagbladet. Varð þá ljóst að drengurinn hefði verið stunginn við apótekið í verslunarkjarnanum þar sem hópur ungmenna var saman kominn og leituðu lögregluþjónar með hunda árásarmannsins.

Laust fyrir klukkan 14 var sá, sem nú hefur fengið varðhaldsúrskurð, handtekinn nærri vettvangi. Sá hefur fram að þessu neitað að greina lögreglu frá tengslum sínum við þann sem hann er grunaður um að hafa stungið.

„Við fórum í Lindeberg-skóla, Bretvedt-skóla og Jeriko-skóla. Við erum að fá mynd af því að eitthvað hafi gerst um helgina og fyrir það hafi átt að hefna,“ segir Røtterud.

Með böggum hildar

Meðal sjónarvotta að því þegar lögregla bar 14 ára drenginn illa haldinn út úr strætisvagninum var Jan Bøhler, þingmaður Miðflokksins. „Sjúkrabíllinn var nýkominn og drengurinn var á leið upp í hann. Það var skelfilegt að sjá svona ungan pilt svo sárt leikinn,“ sagði Bøhler við Dagbladet á mánudaginn.

Þingmaðurinn kveðst með böggum hildar yfir fjölgun ofbeldismála þar sem eggvopn koma við sögu í Ósló. Margir gangi nú orðið með hníf á sér, ekki síst ungmenni. Í samtali við dagblaðið VG í gær sagðist Bøhler vilja taka upp handahófskennda hnífaleit í neðanjarðarlestum borgarinnar og hyggst leggja málið fram á Stórþinginu.

„Þegar hnífurinn er dreginn upp verður það sem hófst sem rifrildi að lífshættulegum aðstæðum,“ sagði Bøhler við VG.

„Fimmtán ára börn á ekki að loka inni“

Héraðsdómur Óslóar úrskurðaði grunaða í einnar viku gæsluvarðhald í gær eftir að lögregla hafði farið fram á tvær vikur sem er hámarkstími hvers gæsluvarðhaldsúrskurðar þegar svo ungir brotamenn eiga í hlut. Hins vegar er hægt að framlengja þann úrskurð telji dómari ástæðu til.

Sagði dómari rökstuddan grun liggja fyrir um að árásarmanninum hefði gengið það til ætlunar að ráða fórnarlambi sínu bana á mánudagsmorguninn.

Grunaði mætti fyrir dómarann í fylgd með lögmanni sínum, Bjørn Rudjord, sem kvaðst í samtali við VG ætla að taka sér umhugsunarfrest áður en hann afréði hvort úrskurðurinn yrði kærður til lögmannsréttar.

„Við ætlum núna að ræða saman og við gætum kært. Fimmtán ára börn á ekki að loka inni nema knýjandi nauðsyn krefji og hana teljum við ekki fyrir hendi hér,“ sagði Rudjord að lokum.

VG

Dagbladet

Aftenposten

Dagsavisen

mbl.is