Varar við þróun faraldursins í Ameríku

Carissa Etienne.
Carissa Etienne. AFP

Dauðsföll af völdum Covid-19 í Suður- og Norður-Ameríku voru tæplega 30% fleiri í nóvember en í október. Íbúar Norður-Ameríku hafa séð metfjölda smita daglega undanfarið, að sögn Carissu Etienne, yfirmanns hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. 

Í ávarpi í dag varaði Etienne við þróuninni. 

Hún benti á að spítalainnlagnir hafi aldrei verið jafn margar í Bandaríkjunum. Þá sagði Etienne að kórónuveiran væri farin að berast inn í samfélög innfæddra sem eru á afskekktum svæðum, til dæmis í Yukon og Nunavut. 

Alex Azar heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna sagði í dag að bráðaleyfi sem Bretar veittu bóluefni Pfizer/BioNTech í dag gæfi Bandaríkjamönnum aukna von. 

„Fyrir Bandaríkjamenn ætti þetta að vera mjög traustvekjandi. Sjálfstæður eftirlitsaðili í öðru landi hefur komist að þeirri niðurstöðu að bóluefnið sé öruggt og áhrifamikið,“ sagði Azar í samtali við Fox í dag. Hann sagði þá að stjórnvöld í Bandaríkjunum biðu eftir niðurstöðu lyfjastofnunar Bandaríkjanna hvað bóluefnið varðar.

mbl.is