Horfðu á tákn haturs í þeirra garð

AFP

Læknir í Kaliforníu sem er gyðingur hefur deilt á Twitter upplifun af því að bjarga fárveikum manni sem var með ný-nasista húðflúr á líkamanum. Auk læknisins tók svartur hjúkrunarfræðingur og öndunarfærasérfræðingur sem er af asískum uppruna, þátt í að undirbúa barkaþræðingu. 

Hakakrossinn og önnur tákn nasista og SS-sveitanna þöktu brjóst mannsins og blöstu við teyminu á gjörgæsludeildinni. „Við sáum þetta öll. Tákn haturs á yfirborði líkama hans og sýndu með stolti skoðanir hans. Við vissum öll hvað hann hugsaði um okkur. Hvernig hann mat virði lífa okkar,“ skrifar Taylor Nichols á Twitter.

AFP

Fjölmargir fjölmiðlar tóku viðtal við Nichols í kjölfarið og þar lýsti hann togstreitunni sem hann glímdi við. Tilfinningar sem komu upp í hugann eftir að hafa mánuðum saman barist við farsóttina og horft upp á sjúklinga deyja. Að búa sjálfur við einangrun og forðast samskipti við þá sem hann elskar. Til þess að bjarga lífi fólks eins og þessa manns á sama tíma og hann óttast að smitast sjálfur og veikjast.

„Því miður hefur samfélagið ekki vilja hlýða á hvað vísindin hafa að segja eða beiðnir okkar. Beiðni um að fólk taki þetta alvarlega, haldi sig heima, noti grímur, til að rjúfa keðju smita,“ segir Nichols. 

Að sögn Nichols grátbað maðurinn þau um að bjarga lífi hans. Maðurinn var í yfirvigt, gamall og tannlaus af áralangri misnotkun metamfetamíns. „Ekki láta mig deyja,“ sagði hann að sögn Nichols.

AFP

Maðurinn var lagður inn á sjúkrahús skammt frá borginni Sacramento um miðjan nóvember. Þá var hann þegar í erfiðleikum með öndun, fárveikur og óttasleginn.

„Ég fullvissaði hann um að við myndum leggja okkur öll fram við að sinna honum og reyna að bjarga lífi hans,“ segir Nichols. Hann viðurkennir að hafa velt fyrir sér hvort maðurinn hefði brugðist eins við ef þeir hefðu haft hlutverkaskipti. 

„Í fyrsta skipti var ég á báðum áttum. Farsóttin hefur sett sitt mark á mig,“ segir hann. „Þá áttaði ég mig á því að það væri kannski ekki í lagi með mig.“ 

AFP

Nichols segir í viðtali við San Francisco Chronicle að þegar hann horfði á tákn haturs flúruð á líkama mannsins hafi hann eitt augnablik ekki haft samúð með sjúklingnum. Nichols segir að hann viti ekki hver afdrif sjúklingsins voru en hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að bjarga lífi hans áður en hann sneri sér að næsta sjúkling – að bjarga næsta mannslífi.  

Alls hafa 1,27 milljónir smitast af Covid-19 í Kaliforníu og af þeim eru tæplega 20 þúsund sjúklingar látnir. Í Bandaríkjunum eru smitin um 14 milljónir og af þeim eru 274 þúsund einstaklingar látnir.

AFP
mbl.is