Jólaboð fjarlægur draumur víða

AFP

Víða í Evrópu eru stjórnvöld að tilkynna um framlengdar sóttvarnaaðgerðir og í einhverjum löndum er ljóst að ferðatakmarkanir verða í gildi um hátíðirnar og ekki hægt að fara á skíði eða í jólaboð.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði kvörtun Frakka sem taldi frönsk stjórnvöld ekki hafa brugðist nægjanlega við vegna Covid-19. Ekki hafi verið til nægar grímur fyrir alla og ekki hægt að bjóða öllum upp á skimun sem þess óskuðu. Taldi dómstóllinn að beiðni mannsins ætti ekki við enda gæti hann ekki sýnt fram á að aðgerðirnar sem hann kvartaði yfir hefðu haft bein áhrif á hann sjálfan. 

AFP

Ítölsk yfirvöld greindu frá því í dag að hömlur yrðu á ferðalögum innanlands um hátíðirnar. Frá 21. desember til 6. janúar verður bannað að ferðast á milli héraða á Ítalíu og á jóladag, annan dag jóla og nýársdag verður bannað að ferðast til annarra bæja. Jafnframt er fólk beðið um að hýsa ekki fólk sem ekki býr á viðkomandi heimili.

Jafnframt er þeim gert að sæta 10 daga sóttkví frá og með 20. desember sem koma til Ítalíu frá öðrum löndum. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að Ítalir ferðist til annarra landa á skíði en skíðasvæði eru opin í einhverjum ríkjum í nágrenni Ítalíu.

Stefnt er að því að halda áfram með litakerfið sem nú er í gildi og þau svæði sem eru rauð og appelsínugul munu áfram halda börum og veitingastöðum lokuðum. Á gulum svæðum verður áfram heimilt að hafa staði opna til klukkan 18 en útgöngubann verði áfram í gildi á landinu öllu frá klukkan 22.

AFP

Lokun verður áfram í gildi í Grikklandi til 14. desember hið minnsta og er það gert vegna þess hversu hár smitstuðullinn er. Þar er fólki gert að halda sig heima og fara ekki úr húsi að nauðsynjalausu.

Óvíst er hvort létt verði á útgöngubanninu í Frakklandi 15. desember eins og stefnt var að þar sem miðað er við að ekki séu greind fleiri en 5 þúsund smit á dag í landinu áður en hömlum verður aflétt. Langt virðist vera í land með að það takist þar sem yfir 14 þúsund smit eru yfirleitt staðfest á degi hverjum. 

mbl.is