Misstu af tækifæri til að borga fyrir bóluefni

Suður-Afríka hefur farið verst allra Afríkuríkja úr heimfaraldri kórónuveiru.
Suður-Afríka hefur farið verst allra Afríkuríkja úr heimfaraldri kórónuveiru. AFP

Suður-Afríka missti af tækifæri til þess að borga sig inn í COVAX-samstarfið sem tryggja á jafna útdeilingu bóluefnis meðal fátækra ríkja heimsins. Ekkert Afríkuríki hefur orðið verr út í baráttunni við kórónuveiruna en Suður-Afríka og hefur um þriðjungur allra þeirra 2,2 milljóna kórónuveirutilfella sem greinst hafa í álfunni, greinst einmitt í Suður-Afríku.

Um 180 þjóðir taka þátt í COVAX-samstarfinu sem komið var á fót af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Suður-afrískir miðlar greindu frá því í dag að þarlend yfirvöld hefðu misst af fyrsta tækifæri til þess að borga sig inn í samstarfið, þrátt fyrir orð Tito Mboweni, fjármálaráðherra Suður-Afríku, um að 33 milljónir dollara væru eyrnamerktir til bóluefnasamstarfsins COVAX.

Heilbrigðisráðuneyti Suður-Afríku segir þó að ekki hafi verið hægt að taka þátt í COVAX-samstarfinu þar sem ekki hafði fengist leyfi frá fjármálaráðuneytinu.

Tæplega 800 þúsund kórónuveirutilfelli hafa greinst í Suður-Afríku og hafa ríflega 21 þúsund manns látist. 

Vonast er til að bólusetja megi um 40-50% íbúa þjóðarinnar, sem telja um 58 milljónir, en sem sakir standa lítur út fyrir að aðeins safnist 330 milljónir dollara, sem nægi til þess að kaupa bóluefni fyrir 10% þjóðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert