Moderna virkar í þrjá mánuði hið minnsta

Bóluefnið Moderna er væntanlegt á markað.
Bóluefnið Moderna er væntanlegt á markað. AFP

Bóluefnið við kórónuveirunni, Moderna, veldur því að ónæmiskerfið býr til mótefni sem endist í að minnsta kosti þrjá mánuði.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Áður hefur verið sýnt fram á að bóluefnið virkar í 94% tilfella.

Vísindamenn við Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna (NIAD), sem tóku þátt í þróun lyfsins, rannsökuðu ónæmiskerfið í 34 fullorðnum þátttakendum, ungum sem öldnum.

Í grein í læknatímaritinu New England Journal of Medicine sögðu þeir að mótefnið, sem kemur í veg fyrir að kórónuveiran ræðst á frumur, „minnkar lítillega með tímanum, eins og búist var við en það var áfram í miklu magni í öllum þátttakendunum þremur mánuðum eftir seinni skammtinn af bóluefninu“.

Húsnæði Moderna í Massachusetts í Bandaríkjunum.
Húsnæði Moderna í Massachusetts í Bandaríkjunum. AFP

Bóluefninu, sem heitir réttu nafni mRNA-1273, er sprautað tvisvar í fólk með 28 daga millibili.

Þrátt fyrir að það dragi úr virkni mótefnisins með tímanum er það ekki endilega talið áhyggjuefni. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna og yfirmaður NIAID, og aðrir sérfræðingar hafa sagt það mjög líklegt að ónæmiskerfið muni eftir veirunni ef hún kemur upp aftur síðar meir og framleiði því nýtt mótefni gegn henni.

mbl.is