Brexit-viðræðum lauk án samnings

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB. AFP

Viðræðum Breta og ESB vegna viðskiptasamnings í kjölfar Brexit lauk án samkomulags í dag. Framundan er samtal á milli Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, um stöðu mála.

Leiðtogarnir munu ræða saman í gegnum síma á morgun eftir að erindrekar þeirra, Michel Barnier og David Frost, slitu viðræðum eftir annasama viku þar sem fundað var dag og nótt.

„Við vorum sammála um það í dag að skilyrðin fyrir samkomulagi væru ekki fyrir hendi,“ sagði Barnier í yfirlýsingu og nefndi bæði stjórnsýslu og fiskveiðar sem dæmi.

Viðræðurnar á milli Breta og ESB hafa dregist á langinn í átta mánuði. Ákveðið var að slíta viðræðum þrátt fyrir að stutt er í að Bretar yfirgefa innri markað ESB 31. desember með eða án viðskiptasamnings.

mbl.is