Nauðgaði fjórum börnum

Joël Le Scou­ar­nec var í gær dæmdur í 15 ára …
Joël Le Scou­ar­nec var í gær dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir hrottalegt níð gagnvart börnum. AFP

Franskur skurðlækn­ir, Joël Le Scou­ar­nec, var dæmdur í 15 ára fangelsi í gær fyrir að hafa nauðgað fjórum börnum og beitt þau öðru kynferðisofbeldi. Dómurinn er sá fyrsti í stærsta barnaníðsmáli franskrar réttarsögu.

Le Scouarnec, sem er 70 ára gamall og kominn á eftirlaun, var svipbrigðalaus er dómurinn var kveðinn upp í Saintes í vesturhluta Frakklands í gær. Níðingurinn sat með krosslagða handleggi og leit aldrei á þolendur ofbeldisins sem réðu vart við tilfinningar sínar þegar niðurstaðan varð ljós að sögn þeirra sem voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna. 

Lögmenn í málinu gegn Joël Le Scou­ar­nec.
Lögmenn í málinu gegn Joël Le Scou­ar­nec. AFP

Níðingurinn átti yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi fyrir brot sín en eftir að hann hefur afplánað dóminn er honum gert að vera undir eftirliti yfirvalda í þrjú ár. Ekki er ljóst hvort hann áfrýjar niðurstöðunni. 

Isabelle Fachaux dómari segir að þrátt fyrir að Le Scouarnec hafi verið dæmdur árið 2005 fyrir að hafa barnaníðsmyndir í fórum sínum hafi hann ekki látið segjast og því sé nauðsynlegt að dæma hann til langrar vistar á bak við lás og slá. „Við erum mjög sátt. Þetta er sanngjarn dómur,“ segir Francesca Satta, lögmaður eins af þolendum ofbeldisins. Viðkomandi tilkynnti um framkomu læknisins árið 2017.

Isabelle Fachaux, héraðsdómari í Saintes.
Isabelle Fachaux, héraðsdómari í Saintes. AFP

Við réttarhöldin sagðist Le Scouarnec ekki vænta miskunnar að sögn lögfræðinga sem voru viðstaddir réttarhöldin en þau fóru fram fyrir luktum dyrum að beiðni þolenda ofbeldisins.

„Ég er ekki að biðja um fyrirgefningu eða vorkunn. Aðeins réttinn til að vera betri maður,“ er haft eftir honum.

Verjandi hans, Thibaut Kurzawa, segir að að skjólstæðingur hans sé fullur eftirsjár og hann viti að það sem hann gerði er ófyrirgefanlegt.

Braut gegn litlum stúlkum

En þetta er aðeins fyrsta málið af mörgum. Læknir og fjölskyldufaðir, sem áður var virtur fyrir störf sín, á yfir höfði sér réttarhöld vegna hundraða mála þar sem hann er sakaður um kynferðislegt ofbeldi og nauðganir.

Le Scouarnec var ákærður árið 2017 eftir að dóttir nágranna hans bar vitni gegn honum. Hún var sex ára gömul er hann braut gegn henni. Rannsókn leiddi í ljós að þrjár stúlkur til viðbótar voru þolendur glæpa af hans hálfu. Tvær frænkur sem hann nauðgaði og fjögurra ára gömul stúlka sem lá á sjúkrahúsinu þar sem hann starfaði árið 1993. Hann braut gegn frænkum sínum á árunum 1989 og 1999.

Braut gegn 312 einstaklingum, bæði börnum og fullorðnum

Að sögn saksóknara leiddi húsleit á heimili Le Scouarnec í ljós upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi og nauðganir af hans hálfu. Þolendur ofbeldisins eru á öllum aldri, börn og fullorðnir, alls 312 einstaklingar. Ofbeldið nær aftur til ársins 1986 er hann starfaði á sjúkrahúsum í Mið- og Vestur-Frakklandi.

Lögregla fann yfir 300 þúsund myndir af börnum, þar á meðal af tveimur frænkum hans, í fórum læknisins.

Le Scouarnec játaði að hafa beitt fjögur börn kynferðislegu ofbeldi en neitaði að hafa nauðgað þeim þegar hann var yfirheyrður af lögreglu. Við réttarhöldin, sem hófust á mánudag, játaði hann síðan að hafa nauðgað frænkum sínum en þær eru 30 og 35 ára í dag. Að sögn lögmanns þeirra, Delphine Driguez, skipti það miklu máli fyrir þær að hann játaði brot gagnvart þeim. 

Joël Le Scou­ar­nec fluttur úr fangelsinu til að vera viðstaddur …
Joël Le Scou­ar­nec fluttur úr fangelsinu til að vera viðstaddur dómsuppkvaðningu. AFP
Blaðamenn biðu fyrir utan dómshúsið þar sem um lokað réttarhald …
Blaðamenn biðu fyrir utan dómshúsið þar sem um lokað réttarhald var að ræða. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert