Deilir 125 milljóna króna verðlaunafé

Disale var meðal annars valinn vegna áherslu sinnar á að …
Disale var meðal annars valinn vegna áherslu sinnar á að ýta undir menntun stúlkna á Indlandi. AFP

Indverskur kennari sem vann alþjóðleg kennaraverðlaun og fékk milljón dollara, u.þ.b. 125 milljónir króna, verðlaunafé hefur heitið því að deila helmingnum með öðrum kennurum sem tilnefndir voru til verðlaunanna. 

CNN greinir frá.

Verðlaunin nefnast Global Teachers Prize og eru þau veitt árlega framúrskarandi kennurum sem hafa lagt hafa mikið af mörkum til fagsins og stéttarinnar. Verðlaunin eru veitt af Varkey-sjóði í samtarfi við UNESCO. 

Ranjitsinh Disale, grunnskólakennari í þorpinu Paritewadi í vesturhluta Indlands, var valinn úr tólf þúsund kennara hópi sem tilnefndir höfðu verið frá yfir 140 löndum. 

Frumkvöðull í starfi

Disale var verðlaunaður fyrir vinnu sína við að efla menntun stúlkna sem koma að mestu úr samfélögum ættbálka á svæðinu. Lagði Disale á sig að læra tungumál ættbálkanna til að þýða kennsluefni.

Þá útbjó hann sérstaka QR-kóða í bækur nemenda til að veita aðgang að hljóð-ljóðabókum, kennslumyndböndum, sögum og verkefnum sem bætti aðsókn í skóla til muna. Kennslutækni þessi er nú notuð víða um Indland.

Í stað þess að halda öllu verðlaunafénu fyrir sjálfan sig sagði Disale í viðtalinu að hann myndi deila því með þeim sem voru í tíu efstu sætum verðlaunalistans. Hvert þeirra fengi 55.000 dollara eða tæpar sjö milljónir króna. Enginn sigurvegari hefur gert neitt slíkt áður.

Gjafmildi Disale hefur náð athygli fólks um allan heim og er Dalai Lama meðal þeirra sem hafa hrósað Disale og lýst aðdáun sinni á honum.

mbl.is