Norskur jólasveinn með Covid – 40 í sóttkví

„Covid-sveinninn“. Geir Engen Hansen leikur nú í fyrsta sinn í …
„Covid-sveinninn“. Geir Engen Hansen leikur nú í fyrsta sinn í Jólaanda, á 30. ári þessa árlega jólaleikrits í Þrándheimi. Ekki fór þá betur en svo en að hann smitaðist af veirunni og hefur frumsýningu nú verið frestað. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fjörutíu manns, þar af helmingur börn, sitja nú í sóttkví í Þrándheimi í Noregi eftir að jólasveinninn greindist með kórónuveiruna þar í borg. Jólasveinn þessi er leikarinn Geir Engen Hansen sem vann að uppsetningu árlegu leiksýningarinnar Jólaandi eða Julestemning með fjölda tónlistarmanna og 20 börnum sem leika í sýningunni.

„Ég fór í próf bara til að útiloka kórónuveiruna,“ segir Hansen við norska ríkisútvarpið NRK um það þegar hann tók að finna fyrir vægum flensueinkennum við undirbúning frumsýningarinnar. Ekki varð honum að þeirri ósk heldur reyndist hann sýktur af veirunni. „Það fór aldeilis á annan veg. Þetta var hreint áfall,“ segir leikarinn enn fremur sem nú kallar sig „Covid-sveininn“ eða „Covid-nissen“ upp á norsku.

30. sýningarárið í röð

Ekki þótti annað tækt en að fresta sjálfri frumsýningu Jólaanda auk þess að breyta dagsetningum sjö annarra sýninga verksins sem er árviss viðburður, en uppsetningin í ár er sú 30. í röðinni og hefur sýningin fyrir löngu hlotið sinn sess sem fastur liður í jólaundirbúningi Þrænda.

„Mér finnst þetta mjög leiðinlegt,“ segir Kristine Sølvberg Hagen, þrettán ára gömul leikmær sem fer með eitt 16 hlutverk jólasveinabarna í sýningunni, en kveðst þó gleðjast yfir því að frumsýningunni var aflýst frekar en að veiran skæða dreifðist enn víðar. „Þetta er jú hættuleg veira,“ segir Hagen.

Kristine Sølvberg Hagen, 13 ára gömul leikkona sem fer með …
Kristine Sølvberg Hagen, 13 ára gömul leikkona sem fer með hlutverk eins jólasveinabarnanna í Jólaanda, kveðst harma ástandið en óttast þó mest að jólasveinninn Hansen haldi að börnin í sýningunni séu honum reið. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hún segir börnin í sýningunni halda góðu sambandi sín á milli á samfélagsmiðlum þrátt fyrir að sitja í sóttkví heima. „Okkur finnst gott að spjalla og það hjálpar. Eins hlökkum við til að sýna þegar þar að kemur,“ segir leikkonan unga, en neitar því ekki að hugur hennar sé hjá Geir Engen Hansen. „Þetta er fyrsta árið hans [í sýningunni] og ég vona að hann haldi ekki að við séum fúl út í hann.“

Ekki fyrsta smit leiklistargyðjunnar

Erik Hagen, stjórnarformaður söngleikjaskólans Musikalfabrikken í Þrándheimi sem hefur veg og vanda af sýningunni, segir allan hópinn munu gangast undir veirupróf nú um helgina. „Nú eru allir í tíu daga sóttkví og við vonum af heilum hug að eingöngu sé um þetta eina tilfelli að ræða. Reynist fleiri smitaðir neyðumst við til að fresta lengur,“ segir Hagen.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem veiran gerir norsku leiklistargyðjunni skráveifu, í nóvember greindust 53 áhorfendur uppsetningar á vegum Söngleikjaháskólans í Ósló sýktir og þurftu þá 45 aðrir í kví.

Þrátt fyrir þetta allt saman hefur Erna Solberg forsætisráðherra gengið svo langt að lofa norskum börnum því að jólasveinninn megi heimsækja þau á aðfangadagskvöld í ljósi þess að enn sem komið er hafi ekkert smit greinst á Norðurpólnum.

NRK

NRKII (smit á sýningunni í Ósló)

NRKIII (lítið um nýsmit í Þrændalögum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert