Tugir handteknir í mótmælum í París

Frá mótmælum helgarinnar.
Frá mótmælum helgarinnar. AFP

Mótmæli brutust út í París aðra helgina í röð. Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu og voru rúður verslana brotnar og eldur lagður að bílum.

Innanríkisráðherrann Gerald Darmanin skrifaði á Twitter að 22 mótmælendur hefðu verið handteknir í París til þessa. Hann bætti við að lögreglan ætti í höggi við „mjög ofbeldisfulla einstaklinga“.

Mótmælendur krefjast þess að lögreglan í Frakklandi verði látin sæta ábyrgð fyrir harkalega framgöngu sína undanfarin misseri. Margir segja frönsku lögregluna mismuna minnihlutahópum, sér í lagi í ljósi atviks sem kom upp nýlega þegar frönsk lögregla gekk í skrokk á svörtum tónlistarmanni.

Forseta Frakklands, Emmanuel Macron, virðist ekki ætla að takast að lægja mótmælaöldur í landinu en hinir svokölluðu gulvestungar voru meðal þeirra sem mótmæltu. Þeir urðu frægir fyrir mótmæli sín gegn efnahagsstefnu Macrons árið 2018.

Emmanuel Macron ávarpaði þjóð sína fyrir skemmstu.
Emmanuel Macron ávarpaði þjóð sína fyrir skemmstu. AFP

Macron reyndi þó að ná til kjósenda og sér í lagi ungra kjósenda með ræðu sinni fyrir skemmstu. Þar sagði hann að „sumir lögregluþjónar væru ofbeldisfullir“ og að „þeim bæri að refsa“.

Þá sagði hann að kynþáttaníð yrði ekki liðið í Frakklandi og sér í lagi innan raða frönsku lögreglunnar. Í sömu andrá gagnrýndi hann þó mótmælendur sem ráðast gegn lögreglu og kallaði þá „brjálæðinga“.

mbl.is