Hæsti tindur í heimi hækkar

Ef ykkur þótti Everest-fjall ekki nægilega hátt fyrir þá hafa stjórnvöld í Kína og Nepal loksins komist að samkomulagi um nákvæma hæð fjallsins, eftir áralangar deilur, enda liggur fjallið á landamærum ríkjanna. 

AFP-fréttastofan greinir frá því að fjallið sé nú 8.848,86 metrar á hæð og var það kynnt með pompi og prakt á blaðamannafundi í Katmandú í Nepal. Jú, fjallið er nú heilum 86 cm hærra en það hefur verið mælt opinberlega hingað til í Nepal, og rúmum fjórum metrum en Kínverjar hafa hingað til viljað viðurkenna.

Unnið að mælingu fjallsins.
Unnið að mælingu fjallsins. AFP

Smá munur

Munurinn í Kína fólst í því að Kínverjar töldu aðeins upp að berggrunninum á toppi Everest í staðinn fyrir, eins og er nú gert, að taka með þann snjó og klaka sem hefur hlaðist upp á tindinum. 

Árið 1856 mældu breskir landfræðingar fjallið fyrst og komust að þeirri niðurstöðu að að fjallið væri 8.840 metrar að hæð. 

Þegar fjallagarpurinn Edmund Hillary sigraði toppinn með sjerpanum Tenzing Norgay í maí ári 1953, þá var hæðinni breytt í 8.848 metra samkvæmt indverskum mælingum. Sú tala hefur haldið sig þar til nú. 

8.850

Árið 1999 hélt reyndar Landfræðingafélag Bandaríkjanna því fram að hæsti punktur fjallsins væri 8.850 metrar yfir sjávarmáli. Yfirvöld í Nepal tóku það hins vegar ekki í mál, þó margir telji aftur á móti að það sé rétt hæð. 

Everest-fjall er hæsta fjall í heimi. Ríflega fjórum sinnum hærra …
Everest-fjall er hæsta fjall í heimi. Ríflega fjórum sinnum hærra en Hvannadalshnjúkur, sem er hæsta fjall Íslands (2.110 metrar). AFP

Síðan þá hafa Kínverjar framkvæmt nokkrar mælingar og árið 2005 héldu þeir fram að rétt hæð væri 8.844,43 metrar. Það leiddi til deilna við Nepala sem leystist ekki fyrr en árið 2010 þegar ríkin urðu loks sammála um að vera ósammála, það er að ríkin væru að miða við ólík atriði þætti í sínum mælingum. Kínverjar miðuðu við sýnilega berggrunn, sem fyrr segir, og Nepalar við snjóhettuna sem hvílir á berginu.

Eitt að klífa fjallið, annað að klífa og mæla það

Í framhaldinu ákváðu yfirvöld í Nepal að hefja rannsókn, fyrst einir síns liðs en síðar í slagtogi með Kínverjum, á hæð fjallsins eftir að ábendingar bárust að stór jarðskjálfti árið 2015 hefði mögulega haft áhrif á hæðina. Um 300 nepalskir sérfræðingar tóku þátt í rannsókninni, sumir fótgangandi og aðrir í þyrlu, til að safna nauðsynlegum upplýsingum. Sl. vor komust svo nepalskir vísindamenn upp á topp Everest með yfir 40 kíló af mælitækjum, þar á meðal sérstakan gervihnattasendi. Þeir voru þar í rúmar tvær klukkustundir í nístingskulda að safna nauðsynlegum gögnum á meðan tugir fjallgöngumanna stóðu á toppi fjallsins. 

„Það tekur á að klífa Everest, en við þurftum líka að mæla það,“ segir Khim Lal Gautam, sem tók þátt í leiðangrinum. 

Alls kyns mælitækjum var komið við og ofan á fjallið …
Alls kyns mælitækjum var komið við og ofan á fjallið til að finna út rétta hæð. AFP
Unnið að mælingu á fjallinu fyrr á þessu ári.
Unnið að mælingu á fjallinu fyrr á þessu ári. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert