Enn ein aftakan í nafni alríkisins

Brandon Bernard var tekinn af lífi í gærkvöldi.
Brandon Bernard var tekinn af lífi í gærkvöldi. AFP

Alríkisstjórn Donalds Trumps lét taka fanga af lífi í gærkvöldi eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafði hafnað beiðni lögfræðinga fangans um miskunn. 

Brandon Bernard var fertugur að aldri þegar hann var tekinn af lífi fyrir aðild að morðum sem framin voru þegar hann var 18 ára gamall. Í tæp 70 hefur alríkisstjórn Bandaríkjanna ekki látið taka svo ungan einstakling af lífi. Bernard bað fjölskyldu hjónanna sem voru myrt afsökunar áður en hann lést af völdum banvænnar sprautu klukkan 21:27 í alríkisfangelsinu í Terre Haute í Indiana.

Donald Trump lætur af embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar.
Donald Trump lætur af embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar. AFP

Alríkisstjórnin stefnir að því að taka fjóra til viðbótar af lífi áður en Trump lætur af embætti forseta 20. janúar. Eftir 17 ára hlé á aftökum á vegum alríkisstjórnarinnar hefur núverandi ríkisstjórn látið taka níu fanga af lífi frá því í júlí. Joe Biden, sem tekur við embætti forseta í janúar, hefur heitið því að stöðva þessar aftökur. Ef allar aftökurnar verða að veruleika verður Trump sá forseti Bandaríkjanna sem hefur tekið flesta af lífi í valdatíð sinni í meira en öld. 

Frétt BBC

Bernard var dæmdur til dauða fyrir aðild að morði hjónanna Todd og Stacie Bagley í júní 1999. Hann var einn fimm ungmenna sem voru ákærð fyrir að hafa rænt parinu og neytt þau til að fara í skott bifreiðar sinnar í Texas. Þau voru skotin þar sem þau lágu í skottinu af 19 ára félaga Bernards, Christopher Vialva. Bernard kveikti síðan í bifreiðinni. Todd lést samstundis en tekist var á um dauða Stacie. Sjálfstætt starfandi rannsakandi sem verjendur Berndards réðu segir að Stacie hafi verið læknisfræðilega látin þegar kveikt var í bifreiðinni en Vialva skaut þau bæði í höfuðið. Aftur á móti var það niðurstaða dómsins á sínum tíma að Stacie hefði látist af völdum reykeitrunar, ekki byssuskotsins. Var það rakið til þess að sót fannst í öndunarvegi hennar. 

Aðrir þeir sem komu að ráninu og morðinu voru dæmdir í fangelsi þar sem ekkert þeirra var orðið 18 ára. Vialva var tekinn af lífi í september.

Frétt Guardian




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert