Biden harðorðari en áður

Jill Biden og Joe Biden taka við í Hvíta húsinu …
Jill Biden og Joe Biden taka við í Hvíta húsinu 20. janúar. AFP

Joe Biden, sem tekur við sem forseti Bandaríkjanna 20. janúar, hefur aldrei gagnrýnt sitjandi forseta, Donald Trump, jafn harkalega og í gær frá því kosningarnar fóru fram í byrjun nóvember. Biden segir að repúblikanar og bandamenn flokksins hafi vanvirt stjórnarskrá landsins og um leið vilja þjóðarinnar með því að sætta sig ekki við niðurstöðu forsetakosninganna.

„Við höfum aldrei áður séð jafn öfgafulla afstöðu,“ segir Biden. Afstöðu þar sem vilji þjóðarinnar er ekki virtur. Þar sem lögum er ekki fylgt og neitað að virða stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Bidens eftir að kjörmenn höfðu formlega staðfest kosningu hans í embætti forseta Bandaríkjanna.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, óskaði Biden til hamingju með sigurinn í morgun og að hann væri reiðubúinn til samstarfs. Pútín er einn fárra þjóðarleiðtoga sem ekki óskuðu Biden til hamingju eftir kosningarnar.

Með ummælum sínum hér á undan vísaði Biden til málshöfðunar repúblikana, með stuðningi Trumps, þar sem reynt var að fá niðurstöðu kosninganna hnekkt fyrir hæstarétti. 

Biden þakkaði kjósendum fyrir að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni en aldrei áður hafa jafn margir greitt atkvæði í forsetakosningum í Bandaríkjunum þrátt fyrir pólitískan þrýsting, hatursorðræðu og jafnvel hótanir um líkamlegt ofbeldi gagnvart þeim sem störfuðu við kosningarnar. 

„Logar lýðræðisins voru kveiktir hjá þessari þjóð fyrir löngu. Nú vitum við að ekkert, hvorki farsótt né misnotkun valds, getur slökkt þá,“ segir Biden.

Hann segir að það sé einlæg ósk hans að bandaríska þjóðin þurfi aldrei aftur að upplifa hótanir og misnotkun af því tagi sem beitt var í forsetakosningunum.

mbl.is