Hátt í milljón Úígúra í þvingunarvinnu

AFP

Hundruð þúsunda úr þjóðarbroti Úígúra í Xinjiang-héraði í norðvesturhluta Kína eru neydd til að tína bómull með handafli í þvingunarvinnukerfi ríkisins, að því er fram kemur í nýrri skýrslu. 

Aðgerðasinnar sem berjast fyrir réttindum Úígúra segja að í norðvesturhluta Xinjiang-héraðsins sé að finna stórt net vinnubúða þar sem að minnsta kosti ein milljón manna er þvinguð til vinnu. Stjórnvöld hafa sagt að um starfsmenntunarstöð sé að ræða sem sé nýtt til að vinna gegn öfgum. 

Umrædda skýrslu vann ameríska rannsóknarstofan Center for Global Policy. Hún var birt á mánudag. Þar var vísað til rafrænna skjala kínverskra stjórnvalda. Í skýrslunni kemur fram að árið 2018 hafi að minnsta kosti 570.000 manns úr þremur héröðum Úígúra verið send til að tína bómull sem hluta af ríkisreknu þvingunarflutningskerfi vinnuafls.

Rannsóknaraðilar áætla að heildarfjöldinn sem tekur þátt í hinni þvinguðu bómullartínslu sé nokkrum hundruðum þúsunda hærri en sú tala. 

Gæti haft harkalegar afleiðingar 

Xinjiang er þekkt fyrir bómullaruppskeru en héraðið framleiðir meira en 20 prósent af bómull heims. Skýrslan varar við því að niðurstöður hennar gætu mögulega haft „harkalegar afleiðingar fyrir alþjóðlegar birgðakeðjur“.

Stjórnvöld í Peking segja að þau hafi nú „útskrifað“ alla úr búðunum en skýrslur benda til þess að margir fyrrverandi fangar hafi verið færðir í önnur störf sem krefjast lítillar færni í verksmiðjum. Þessi störf tengjast gjarnan vinnubúðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert