„Raunveruleg lokun“ í Danmörku

Mett Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og spegilmynd hennar.
Mett Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og spegilmynd hennar. AFP

Öllum verslunum, að undanskildum matvöruverslunum og apótekum, verður lokað í Danmörku frá jóladegi og fram til 3.janúar. Frá þessu greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra fyrir stundu.

Þá verður hárgreiðslustofum og sjúkraþjálfurum gert að hætta starfsemi sinni frá og með mánudeginum 21. desember, og nemendur í yngri bekkjum grunnskóla sendir heim. 

Þetta er í annað sinn á rúmri viku sem aðgerðir eru hertar í Danmörku, en á miðvikudag í síðustu viku var öllum börum. kaffihúsum, skemmtistöðum og menningarstofnunum lokað í Kaupmannahöfn og öðrum fjölmennum borgum í landinu ásamt því sem nemendur í eldri bekkjum grunnskóla, framhaldsskólum og háskólum voru sendir heim.

Þær aðgerðir eiga einnig eiga að gilda til 3. janúar. Að fenginni reynslu er þó ekki ólíklegt að aðgerðirnar verði framlengdar, og hafa margir háskólar í Danmörku þegar fært alla kennslu á netið út janúarmánuð.

Frederiksen sagði á blaðamannafundi í dag að ákvörðunin væri tekin vegna þess að hætta væri á að kórónuveirufaraldurinn færi úr böndunum og slíkt kynni að hafa alvarlegar afleiðingar.

„Ástandið vegna kórónuveirufaraldursins er því miður mjög alvarlegt. Meira en 22.000 hafa greinst smitaðir síðustu viku samanborið við 15.000 í vikunni áður. Það skýrist að hluta til því að fleiri hafa verið skimaður, en við sjáum því miður að hærra hlutfall greinist jákvætt,“ sagði Mette Frederiksen.

„Þetta er raunveruleg lokun sem mun taka gildi í Danmörku,“ sagði hún.

Eins lágstemmd jól og hægt er

Samkomubann í Danmörku miðast nú við tíu manns, líkt og hér á landi, en sem fyrr segir eru mun víðtækari lokanir þar í landi. Nýgengi smita í Danmörku, smit á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikur, er 523, samanborið við 28 á Íslandi.

Þrátt fyrir að samkomubannið miðist við tíu manns hvetur forsætisráðherrann landsmenn því til að hitta sem fæsta um jólin. „Við viljum hvetja fólk til að halda öðruvísi jól og áramót en það er vant. „Það væri ekki gott að missa tökin á síðasta degi ársins,“ sagði Mette.

Hættustig í öllu landinu hefur verið fært upp á fjórða stig, það næsthæsta. Á fundinum sagði Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra að talið væri að innan nokkurra daga yrði met slegið í fjölda þeirra sem eru á sjúkrahúsi vegna Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert