Lífsskoðanir kviðdómenda grandskoðaðar

Minnisvarði um Floyd.
Minnisvarði um Floyd. AFP

Dómari í málinu vegna dauða George Floyd hefur gefið tilnefndum kviðdómendum 16 blaðsíðna spurningalista til að fá úr því skorið hvort þeir teljast hæfir og nægilega hlutlægir til starfsins.

Í spurningalistanum er fólk spurt um viðhorf til löggæslu, réttarkerfisins og hreyfinga eins og Black Lives Matter, sem barist hefur gegn lögregluofbeldi og mismunun í garð svartra. Ekki fylgir sögunni hver æskileg viðhorf kviðdómenda eru.

Þá eru kviðdómendur beðnir um að gefa ítarlega yfirferð um allt sem þeir vita um málið, þar með talið hversu oft – ef einhvern tíma – þeir hafa séð myndbandið af síðustu andartökum Floyds. Þá eru þeir spurðir hvort þeir séu reiðubúnir að líta fram hjá öllu sem þeir hafa séð um málið hingað til og taka aðeins afstöðu út frá þeim gögnum sem fram koma við meðferð málsins.

Floyd lést í lok maí eftir að lögreglumaður hafið kropið á hálsi hans í tæpar níu mínútur. Skeytti hann engu þótt Floyd engdist um af kvölum og biðlaði ítrekað til hans að sleppa takinu svo hann gæti andað.

Derek Chauvin, sem ákærður er fyrir morðið.
Derek Chauvin, sem ákærður er fyrir morðið. AFP

Drápið vakti mik­inn óhug og reiði um öll Banda­rík­in og varð kveikj­an að stór­felldri mót­mæla­öldu sem geisaði mánuðum saman og eimir enn eftir af. Er þess kraf­ist að kerf­is­bundn­ir kynþátta­for­dóm­ar inn­an lög­reglu í Banda­ríkj­un­um verði upp­rætt­ir.

Réttarhöldin í málinu eiga að hefjast eftir þrjá mánuði. Vegna athyglinnar hefur dómaranum reynst erfitt að finna kviðdómendur sem ekki þykja hafa myndað sér skoðun á málinu. 

Dómarinn, Peter A. Cahill, við dómstóllinn í Hennepin-sýslu í Minneapolis vísaði þó í síðasta mánuði frá kröfu verjenda sakborninganna um að réttarhöldin yrðu færð til annarrar borgar. Sagði hann að hægt yrði að halda „örugg og sanngjörn“ réttarhöld í borginni og benti enn fremur á að „enginn staður í Minnesota-ríki hefði sloppið við umfjöllun um dauða George Floyds“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert