Hvað er í pakkanum?

Samkomulag Evrópusambandsins og Breta var birt í dag.
Samkomulag Evrópusambandsins og Breta var birt í dag. AFP

Bretar og Evrópusambandið komust að langþráðu samkomulagi um tilhögun útgöngu Breta úr sambandinu á aðfangadag. Samningurinn var birtur í heild sinni í dag, en hann er rúmar 1.200 síður að lengd.

Breska þingið mun koma saman 30. desember til að samþykkja samkomulagið sem tekur gildi um áramót en Evrópuþingið mun síðan þurfa að leggja blessun sína yfir það í janúar.

Hér eru nokkur helstu atriði.

Ferðafrelsi afnumið

Frá áramótum munu íbúar Evrópusambandsins og Schengen-ríkja, þar með talið Ísland, ekki lengur geta sest að í Bretlandi án sérstaks leyfis. Bretar hafa tilkynnt að þeir muni innleiða sérstakt punktakerfi að ástralskri fyrirmynd þar sem tilvonandi innflytjendur eru metnir út frá þáttum á borð við menntun, tekjur og enskukunnáttu.

Þetta gildir vitanlega líka í hina áttina. Bretar munu ekki geta sest að í löndum ESB og Schengen án leyfis.

Hægt verður að ferðast í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili án sérstakrar áritunar. Það eru sömu reglur og gilda almennt um ferðalög milli landa sem ekki krefjast vegabréfsáritunar.

Aðilarnir munu áfram viðurkenna gildi ökuskírteina hver annars. Þá munu þeir eiga samstarf um reikigjöld farsíma, að því er segir í samkomulaginu. Ekkert er þó þar sem segir til um að Bretar verði ekki rukkaðir fyrir farsímanotkun í ESB – eða öfugt.

Tollfrelsi og evrópskir staðlar

Engir tollar eða innflutningskvótar verða á nær allar vörur sem fluttar eru á milli Bretlands og Evrópusambandsins. Vörur fluttar frá Bretlandi verða að uppfylla heilbrigðis- og öryggisstaðla Evrópusambandsins og strangar reglur munu gilda um vöruhluta sem framleiddir eru utan Bretlands og Evrópusambandsins.

Vörur sem selja á bæði í Bretlandi og Evrópusambandinu munu þurfa að fá vottun fyrir hvorn markað fyrir sig. 

Deilur

Bretar höfnuðu alfarið að Evrópudómstóllinn hefði nokkra dómsögu í deilum sem gætu komið upp. Fyrir vikið verða þær teknar fyrir hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WHO). Takist ekki að leysa mál þar verða þau leyst með þriggja manna gerðardómi.

Norður-Írland hefur sérstaka stöðu samkvæmt samkomulaginu. Svæðið verður áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins og ber að hlíta tollareglum. Þar mun Evrópudómstóllinn því enn hafa dómsögu. 

Fiskveiðar

Evrópusambandið mun afsala sér fjórðungi núverandi kvóta á breskum fiskimiðum í nokkrum skrefum næsta fimm og hálfa árið. Eftir það munu aðilarnir þurfa að semja árlega um það magn sem fiskibátar Evrópusambandsins mega veiða á breskum miðum.

Ef Bretar takmarka aðgang Evrópusambandsríkja er ESB heimilt að beita refsitollum á fiskinnflutning frá Bretlandi og jafnvel fella úr gildi stærstan hluta samkomulagsins.

Sömu leikreglur

Evrópusambandið lagði í viðræðunum áherslu á að „sömu leikreglur“ yrðu að gilda fyrir bresk fyrirtæki og evrópska keppinauta til að koma í veg fyrir félagsleg, skattaleg og umhverfisleg undirboð eða ósanngjarnar niðurgreiðslur.

Úr varð að Bretar munu setja upp sjálfstæða stofnun til að ákvarða samkeppnislög, sem hliðstæðu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. 

Tímabundinn ríkisstuðningur til að bregðast við „innanlands- eða alþjóðlegri neyð“ – svo sem kórónuveirufaraldrinum – verður ekki ólöglegur svo fremi sem hann er í samræmi við tilefnið. 

Dómstólum beggja vegna Ermarsundsins verður falið að leggja mat á þennan hluta samkomulagsins.

Tollafgreiðsla

Þegar Bretar yfirgefa innri markaðinn um áramót munu vörur sem ferðast milli svæðanna þurfa tollafgreiðslu, sem óhjákvæmilega felur í sér meira skrifræði en fyrir.

Bretar segja samkomulagið opna á að sérstök fyrirtæki séu viðurkennd sem „örugg fyrirtæki“ sem geta fengið flýtimeðferð við tollafgreiðslu í því skyni að flýta ferlinu. Þetta á þó enn eftir að skýrast.

Öryggismál og mannréttindasáttmálinn

Bretar og Evrópusambandið munu áfram deila hvor með öðrum upplýsingum um DNA, fingraför og flugfarþega. Bretar hafa þegar notið góðs af gagnagrunni Evrópulögreglunnar Europol þrátt fyrir að hafa aldrei verið aðilar að Schengen-samstarfinu.

Í samkomulaginu er kveðið á um að Evrópusambandið geti slitið öryggissamstarfinu ef Bretar segja sig frá mannréttindasáttmála Evrópu, en umræða um það hefur farið fram í Bretlandi.

Starfsréttindi

Í samantekt BBC segir að margar stéttir, frá endurskoðendum til kokka, sem vinni þvert á landamæri njóti góðs af sameiginlegum vottunum Evrópusambandsins á starfsréttindum. Hafi maður leyfi til að stunda starfsemi í einu ESB-landi gildir það í þeim öllum.

Þetta mun ekki gilda eftir áramót. Breskir ríkisborgarar sem vinna í löndum Evrópusambandsins munu þurfa að fá réttindi sín viðurkennd í hverju landi fyrir sig án þess að geta verið vissir um að fá samþykki. 

Fjármálaþjónusta

Lítið er í samkomulaginu um stöðu fjármálafyrirtækja. BBC segir að bresk fjármálafyrirtæki hafi ekki borið jafnmikið úr býtum og vonast hafi verið til. Eitt sé víst að tryggður aðgangur breskra fyrirtækja að innri markaðnum sé á enda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert