Kveikt í flóttamannabúðum í Líbanon

Flóttamannabúðirnar í ljósum logum. Um 75 fjölskyldur bjuggu þar.
Flóttamannabúðirnar í ljósum logum. Um 75 fjölskyldur bjuggu þar. Ljósmynd/Twitter

Kveikt var í flóttamannabúðum Sýrlendinga í norðurhluta Líbanons í kvöld. Ríkisfjölmiðill landsins segir að íkveikjan komi eftir deilur milli íbúa flóttamannabúðanna og líbanskrar fjölskyldu úr nágrenninu, sem var með fólk úr búðunum í vinnu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) staðfestir að eldurinn hafi komið upp í Minueh-héraði og að nokkrir hafi verið fluttir á sjúkrahús, en nákvæmur fjöldi liggur ekki fyrir. Þá er ekki vitað til þess að neinn hafi látist.

Um 75 fjölskyldur bjuggu í búðunum.

Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar segir að skothvellur hafi heyrst úr nágrenninu en upp úr hafi soðið eftir að sýrlensku verkamennirnir kröfðust þess að fá laun sem líbanskir yfirmenn þeirra neituðu að borga. Sömu heimildir herma þó að deilurnar gætu hafa hafist vegna áreitis í garð sýrlenskra kvenna.

„Sumar fjölskyldur hafa flúið búðirnar því það heyrðust einnig sprengjuhvellir frá gaskútum sem sprungu,“ segir Khaled Kabbara, talsmaður Flóttamannastofnunar SÞ, í samtali við AFP.

Um ein og hálf milljón Sýrlendinga býr í Líbanon, þar af um ein milljón skráðra flóttamanna samkvæmt skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna. Landið, sem á landamæri að Sýrlandi, hefur tekið við næstmestum fjölda Sýrlendinga á eftir Tyrkjum.

Yfirvöld í Líbanon hafa kallað eftir því að flóttamenn snúi aftur til Sýrlands, þrátt fyrir að mannréttindasamtök segi stríðshrjáð heimaland þeirra enn ekki öruggt.

Í síðasta mánuði urðu 270 sýrlenskar fjölskyldur að flýja bæinn Bsharre í norðurhluta Líbanons eftir að Sýrlendingur var sakaður um að hafa skotið Líbana til bana, en atvikið þykir hafa magnað spennu milli landsmanna og flóttamannanna og aukið fjandsemi í þeirra garð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert