Loftárásir gerðar á höfuðborg Jemen

Loftárás Sáda í Sanaa í dag er sögð hefndaraðgerð fyrir …
Loftárás Sáda í Sanaa í dag er sögð hefndaraðgerð fyrir árás húta í Aden í gær. Mynd úr safni. AFP

Sádar og bandamenn þeirra gerðu í dag loftárás á Sanaa, höfuðborg Jemen, sem er á valdi uppreisnasveita húta. Árásin er sögð í umfjöllun Reuters hefndaraðgerð fyrir árásir í hafnarborginni Aden í gær, en þær áttu sér stað þegar fulltrúar alþjóðlega viðurkenndra stjórnvalda landsins komu til borgarinnar.

Flugvöllurinn í Sanaa var meðal fjölda skotmarka í borginni í dag. Að sögn íbúa mátti heyra sprengingar víða um borgina og voru herflugvélar yfir borginni í fleiri klukkutíma. Samkvæmt Masirah sjónvarpsstöðinni, sem rekin er af hútum, lentu sprengjur Sáda og bandamanna þeirra á 15 mismunandi stöðum. Enn er ekki vitað um mannfall.

Stríðið hefur staðið frá því að hútar gerðu uppreisn árið 2014 og hafa þúsundir saklausra borgara fallið í loftárásum.

Dregið hefur úr loftárásum eftir sem liðið hefur á stríðið þar sem pattstaða hefur myndast. Hútar hafa með stuðningi Írana náð völdum í flestum þéttbýlum Jemen, en alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld hafa hreiðrað um sig í Aden með stuðningi Sáda og vestrænna ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert