Ísraelar leiða í bólusetningum

AFP

Ísrael hefur bólusett hlutfallslega flesta við kórónuveirunni. Rúmlega milljón íbúar Ísraels hafa þegar verið bólusettir. 

Ísrael hefur undanfarnar vikur bólusett hlutfallslega flesta, eða 11.55 af hverjum 100 íbúum. Á eftir Ísraelum hafa Bretar (1.47) og Bahrain (3.49) bólusett hlutfallslega flesta. Til samanburðar höfðu einungis 138 einstaklingar verið bólusettir í Frakklandi 30. desember síðasta árs. Þýskaland hafði á sama tíma bólusett um 130.000 íbúa. 

Bandaríkin, sem höfðu lýst því yfir að 20 milljónir íbúa yrðu bólusettir fyrir lok árs 2020, hafa einungis bólusett tæpar 3 milljónir íbúa. 

Ísraelar hófu bólusetningar 19. desember og hafa að meðaltali bólusett 150.000 einstaklinga á dag. Einstaklingar yfir 60 ára, heilbrigðisstarfsfólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma eru í forgangshópi. Ísraelar tryggðu sér bóluefni Pfizer og BioNTech snemma í faraldrinum. Benjamin Netanyahu, sem stendur í kosningabaráttu, hefur boðað það að Ísrael verði laust úr gripum faraldurs í febrúar. 

Evrópusambandið var á eftir bæði Bretlandi og Bandaríkjunum að samþykkja nokkurt bóluefni. Lyfjastofnun Evrópu samþykkti til að mynda bóluefni Pfizer 21. desember, en sama bóluefni var samþykkt 2. desember á Bretlandi og 11. desember í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert