„Slagurinn ekki búinn“

Kristinn Hrafnsson segir daginn í dag sigurdag þrátt fyrir að slagurinn sé ekki búinn. Dómari í Bretlandi neitaði í dag að leyfa að framselja Julian Assange til Bandaríkjanna þar sem 17 ákærur um njósnir bíða hans. 

„Bandarísk yfirvöld gáfu strax til kynna, í gegnum lögmenn sína, eftir úrskurðinn að honum yrði áfrýjað og einnig ber að líta til þess að þessi úrskurður er einungis byggður á heilsufarslegum áhyggjum. Í öllum öðrum atriðum er sneru að blaðamennsku virtist dómarinn hallast að málflutningi Bandaríkjastjórnar,“ sagði Kristinn Hrafnsson í samtali við mbl.is. Kristinn hafði rétt lokið við yfirlýsingu fyrir utan réttarsalinn í Old Bailey court í London þegar blaðamaður mbl.is náði af honum tali. 

Ekki endilega sigur fyrir blaðamennskuna

„Þetta er sigur fyrir Julian en ekki endilega fyrir blaðamennskuna,“ bætti Kristinn við. Hann sagði því hafa blendinn hug til úrskurðarins en mikilvægt að Julian Assange hafi fengið þessa niðurstöðu. 

Samkvæmt fréttaflutningi ytra hafa lögmenn bandaríska ríkisins fjórtán daga til að áfrýja dómnum. Að öðrum kosti sé Assange frjáls ferða sinna.

Assange hefur nú setið í gæsluvarðhaldi og beðið þessarar niðurstöðu í 21 í mánuð í öryggisfangelsi og þar áður hafði hann dvalið í sjö ár í ekvadorska sendiráðinu í London. Kristinn Hrafnsson segir andlega og líkamlega heilsu Assanges vera eftir því.

„Nú tekur við áfrýjunarferli nema að bandarísk stjórnvöld sjái að sér og sjái sóma sinn í því hætti þessu ofstæki,“ segir Kristinn. Hann segir Belmarsh-fangelsið þar sem Assange hefur verið í haldi vera mesta öryggisfangelsi Bretlands. 

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hélt ávarp fyrir utan réttarsalinn eftir …
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hélt ávarp fyrir utan réttarsalinn eftir að úrskurður féll í framsalsbeiðni Bandaríkjanna á Julian Assange. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert