Útilokað að finna fólk á lífi

Kveikt á kertum við aðalgötu bæjarins.
Kveikt á kertum við aðalgötu bæjarins. AFP

Lögreglan í Noregi hefur gefið upp von um að þau þrjú sem saknað er eftir jarðfall í bænum Ask í Noregi í síðustu viku finnist á lífi.

Lögreglustjórinn Ida Melbo Øystese greindi frá þessu á blaðamannafundi nú fyrir stundu. Skriða féll úr sárinu í morgun sem myndaðist við jarðfallið og forðuðu björgunarsveitarmenn sér í tæka tíð.

Tíu var saknað eftir jarðfallið 30. desember og af þeim hafa sjö fundist látnir. 

„Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur,“ sagði Øystese á blaðamannafundinum þar sem ljóst varð að tíu hefðu látist í náttúruhamförunum.

Áfram verður leitað að þeim sem saknað er þó búið sé að útiloka að þau finnist á lífi.

„Þetta er mikið áfall sem hefur legið í loftinu,“ sagði Anders Østensen, bæjarstjóri í Ask.

Frétt VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert