„Þetta er komið á annað stig“

Frá óeirðunum við þinghúsið í Washington.
Frá óeirðunum við þinghúsið í Washington. AFP

„Það sem er að gerast er að það er verið að mótmæla því að réttkjörinn maður taki við völdum sem er gríðarlega alvarlegt,“ segir Júnía Lin Jónsdóttir sem búsett er í Washington-umdæmi í Bandaríkjunum, um óeirðir sem spruttu upp fyrr í kvöld þegar múgur, hliðhollur Donald Trump Bandaríkjaforseta, braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjaþings. 

Júnía segist hafa fengið skilaboð frá borgarstjóra Washington, Muriel Bowser, fyrr í kvöld um að útgöngubann hafi verið sett á þangað til í fyrramálið. „Það var svona staðfesting um að eitthvað stórt væri í gangi,“ segir Júnía. 

Múgur braut sér leið inn í þinghúsið á meðan sameiginlegur þingfundur fulltrúa- og öldungadeildarinnar stóð yfir, en til stóð að staðfesta kjör Joe Biden, verðandi forseta. Sam­kvæmt fjöl­miðlum vest­an­hafs hef­ur einn verið skot­inn inni í þing­hús­inu. AFP hef­ur eft­ir þing­mönn­um að um „vald­arán“ sé að ræða. 

Júnía Lin Jónsdóttir er búsett í Washington DC um þessar …
Júnía Lin Jónsdóttir er búsett í Washington DC um þessar mundir. Ljósmynd/Aðsend

Júnía segist hafa verið í grennd við Capitol Hill fyrr í dag. Hana hafi aldrei grunað hvað væri í vændum. 

„Við búum inni í Washington og erum svona 10 mínútur að keyra að Capitol Hill. Ég var nánast þarna í morgun að kenna. Ég held að það hafi engin átt von á því að þetta yrði svona stórt. Borgarstjórinn átti ekki von á því heldur held ég, hún sendi þjóðvarðliðið fyrir hönd DC óvopnað í morgun til þess að reyna að magna ekki ástandið upp,“ segir Júnía. 

Hvatti mótmælendur til ofbeldisverka

Þingmenn vestanhafs, ekki síst þingmenn demókrata, hafa sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um að hvetja til ofbeldisverka á mótmælafundi fyrr í dag. 

„Það voru skipulögð mótmæli í morgun og mótmælafundur sem Trump mætti á og hvatti liðið til að sýna bakbeinið og sýna fólki að það væri alvara á bak við þetta. Hann var í raun bæði beint og óbeint að hvetja til ofbeldis,“ segir Júnía, en Trump hefur ítrekað haldið því fram án sannana að víðtækt kosningasvindl hafi leitt til sigurs Joe Biden í forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember. „En það bjóst held ég enginn við að hann myndi segja „hey, farið inn í þinghúsið og komið í veg fyrir að hann verði staðfestur,“ segir Júnía. 

Mikið hefur verið um mótmæli í Washington og víðar í Bandaríkjunum síðustu mánuði, ekki síst eftir að George Floyd, svartur karlmaður, lést í varðhaldi lögreglu þegar lögregluþjónn kraup á hálsi hans í fleiri mínútur í maí síðastliðnum. Júnía segir mótmælin nú þó vera annars eðlis. 

„Við höfum fengið tilkynningu í símana svo oft síðasta árið, út af Black Lives Matter, þetta er ekki í fyrsta sinn sem það er sett á útgöngubann og það var aldrei áfall, það var svo margt að gerast, en þetta er allt öðruvísi núna en það var áður. Þetta er komið á annað stig, að ráðast á þinghúsið, það er bara valdarán. Þegar Black Lives Matter-mótmælin voru í gangi voru ekki allir vopnaðir. Á þeim tíma vorum við líka svo vön því að vera með útgöngubann, líka út af Covid-19 og það var bara hluti af pakkanum,“ segir Júnía. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert