Bandaríkjaþing hefur kosið gegn tilraun stuðningsmanna Trumps Bandaríkjaforseta til að koma í veg fyrir að framfylgt verði vilja kjósenda í Arizona í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu 3. nóvember.
Fulltrúadeildin hafnaði því að mótmæla kosningu kjörmanna ríkisins með 303 atkvæðum gegn 121 atkvæði.
Rúmur helmingur þingmanna repúblikana kaus með því að mótmæla kosningunni, þrátt fyrir að þingmenn úr röðum demókrata hefðu beðið þá að endurskoða þá ákvörðun sína í ljósi þess að skríll stuðningsmanna forsetans hefði ráðist inn í þinghúsið fyrr um daginn.
Leiðtogar repúblikana í fulltrúadeildinni, þeir Kevin McCarthy og Steve Scalise, voru á meðal þeirra sem mótmæltu kosningunni.
Öldungadeildin var öllu ákveðnari, þar sem 93 atkvæði féllu gegn mótmælunum og sex atkvæði með mótmælunum.
Að minnsta kosti fjórir öldungadeildarþingmenn repúblikana sögðu að sér hefði snúist hugur eftir að hafa áður sagst myndu kjósa með mótmælunum.
Stöðva þurfti talninguna eftir að æstur múgur stuðningsmanna forsetans Donalds Trumps réðst inn í þinghúsið í Washington-borg.
Útgöngubann hefur verið sett á í Washington sem gildir til klukkan 6 árdegis í dag, fimmtudag að staðartíma, klukkan 11 að íslenskum tíma.
Fylgst verður áfram með tíðindum vestanhafs á mbl.is, hér fyrir neðan beina útsendingu ABC-fréttastöðvarinnar.